„Við höfum miklar áhyggjur ef það verður að veruleika að takmarka bílaumferð um Heiðmörkina. Það mun draga úr aðsókn gesta ef fólk þarf að ganga einhverja kílómetra að þeim svæðum þar sem viðburðir eru haldnir,“ segir Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Hann segir Skógræktarfélagið mjög meðvitað um mikilvægi vatnsverndar og telur mikilvægt að Veitur og Skógræktarfélagið séu í góðu samstarfi um rekstur Heiðmerkurinnar.
„Við höfum leitað til sérfræðinga í vatnsverndarmálum sem hafa lagt til að í stað þess að girða af 35 hektara svæði með tilheyrandi breytingum á göngustígum verði skoðað að loka 50 ára gamalli holu við Myllulæk og ný hola boruð í Vatnsendakrika sem er mun nær meginstreymi vatnstökunnar. Verði það gert dregur verulega úr hættu af þeirri umferð sem nú fer um Heiðmörkina.“
Jóhannes segir að í lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar sé stuðlað að aukinni útivist borgarbúa og að takmarka aðgengi almennings á fjölskyldubílnum inn í Heiðmörk sé í algjörri mótsögn við það.
„Það er mjög mikilvægt að almenningur geti farið á svæði eins Heiðmörk sem er 75 ára á árinu og er stærsta útivistarsvæði Reykvíkinga. Þar nýtur fólk veðursældar í skjólgóðum skóginum hvort sem það er á göngu í leikjum eða bara hvíld.“
Hann segir að nú þegar hafi Veitur takmarkað skipulagða viðburði á vegum Skógræktarfélagsins, til dæmis Heiðmerkurhlaup sem ekki megi lengur halda, auk þess sem heimsóknir leikskólabarna og aðrir viðburðir hafa verið takmarkaðir.
„Að setja bílastæði út í jaðar Heiðmerkurinnar, sem við vitum ekki ennþá hvar verður, og loka þeim bílastæðum sem eru í Heiðmörk gæti haft þau áhrif á jólamarkaðinn að hann legðist af, en hann er okkar stærsta fjáröflun.“
Jóhannes segir Skógræktarfélagið tilbúið að skoða takmörkun á umferð, bæði hvað snýr að hraðatakmörkunum og næturumferð.
„Nú er Heiðmörkin opin allan sólarhringinn og við erum sammála því að loka henni á nóttunni. Þar eru hvergi hraðatakmarkanir og það mætti setja upp umferðarskilti eða einhverjar hraðatakmarkanir og hafa eitthvert eftirlit með bílaumferðinni í stað þess að leggja hana af,“ segir hann.
Síðastliðna mánuði hefur verið unnið að deiliskipulagi Heiðmerkur sem Skógræktarfélagið hefur tekið þátt í og segir Jóhannes stefnt að því að þeirri vinnu ljúki í sumar eða haust.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.