Hópur unglingsdrengja réðst á trans konu fyrir utan líkamsræktarstöð World Class í Laugum í haust og hlaut konan töluverða líkamlega áverka. Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður samtakanna 78, segir alvarlega árás sem þessa ekki einsdæmi.
„Við höfum séð alveg umtalsverða aukningu seinustu tvö til þrjú ár á ofbeldi og áreitni gagnvart trans fólki og hinsegin fólki almennt,“ sagði Bjarndís Helga í samtali við mbl.is.
Almennt hefur því áreitni og ofbeldi færst í aukana gagnvart trans fólki hérlendis að sögn Bjarndísar. Hún segir einnig að því miður sé það ekki einsdæmi að árásirnar séu á jafn háu alvarleikastigi og raun bar vitni í umræddri árás síðastliðið haust.
„Þetta er ekki einsdæmi að beitt sé svona grófu ofbeldi og þessum árásum hefur fjölgað núna á milli ára.“
Reyn Alpha Magnúsdóttir, forseti samtakanna Trans Ísland, segir einnig að ofbeldi gagnvart trans fólki sé tvímælalaust að færast í aukana.
„Þessi óöryggistilfinning fer alveg klárlega vaxandi meðal trans fólks,“ segir Reyn Alpha í samtali við mbl.is.
Að sögn Reyn er þetta hluti af alþjóðlegri þróun sem sést víða um heim. Skipulagðir hópar hafa að sögn Reyn hag af því að grafa gegn mannréttindum sem hafa verið gildandi síðastliðna áratugi og beita því hatursorðræðu gegn hinsegin fólki.
„Samfélagsmiðlar hafa spilað stóran þátt í þessu þar sem hatursorðræða flæðir um allt og er yfirgnæfandi alls staðar sem trans manneskja kemur við sögu. Tilkoma miðla eins og Tiktok sem eru voðalega stýrðir fyrir hvern einn og notanda hefur leitt til þess að auðvelt er að festast í kanínuholu haturs.“