Búast má við norðan kalda eða stinningskalda á landinu í dag. Á Austfjörðum er spáð allhvassri norðvestanátt fram eftir degi, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar.
„Dálítið éljaloft er norðan- og austanlands og hiti um frostmark en í kvöld bætir heldur í ofankomu um tíma. Sunnan heiða er yfirleitt bjart og hiti að 6 stigum að deginum.“
Á morgun er spáð breytilegri átt, 3-8 m/s, en áfram norðvestan strekkingi á suðaustanverðu landinu. Í flestum landshlutum verður þá bjart. Þó verða sums staðar stöku él eða skúrir.