Sumardagurinn fyrsti er eftir eina viku og því varla tímabært að líta til veðurs alveg strax. Fyrsta spáin er þó komin fyrir þennan dag sem Íslendinga lengir eftir allan veturinn.
Á vef Veðurstofu Íslands segir um veðurhorfur á fimmtudaginn í næstu viku, sumardaginn fyrsta: „Útlit fyrir ákveðna austanátt með rigningu og hlýju veðri, en yfirleitt bjart og þurrt norðan til.“
Sumardagurinn fyrsti er lögboðinn frídagur á Íslandi og ber alltaf upp á fimmtudegi. Var hann gerður að lögboðnum frídegi árið 1971.
Í svari Trausta Jónssonar, sem birt er á Vísindavefnum en þó tekið af vef Veðurstofunnar, segir að sumardagurinn fyrsti sé alltaf annar fimmtudagurinn eftir Leonisdag, sem er 11. apríl hvert ár.
Hann er því aldrei fyrr en 19. apríl og ekki síðar en þann 25.