Tilefni er til þess að fá nafni „Brúarinnar milli heimsálfa“ sem er á Reykjanesskaganum breytt. Þetta segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus.
Staður þessi hefur verið í fréttum að undanförnu vegna stórrar holu eða jarðvarps sem þar hefur myndast. Sú er skammt frá göngustíg sem að brúnni liggur og því getur verið varhugavert að ganga utan brautarinnar.
Einnig hafa komið í ljós sprungur í Valahnúk, en sá gengur í sjó fram nærri Reykjanesvita og er því sem næst á hælnum sem er suðvesturhorn Íslands.
En meira um Álfubrúna, sem svo er stundum kölluð. Hún var sett niður árið 2002 og er á jarðsprungu upp af Sandvík, sem er nokkuð suður af kauptúninu Höfnum.
Stórt bílastæði er við brúna og frá því er stuttur spölur um malbikaða gönguleið að brúnni sjálfri. Af brúnni er hægt að ganga niður í sandinn í gjánni og undir þetta sérstæða mannvirki
„Ísland hefur hingað til verið talið til heimsálfunnar Evrópu. Ameríka tekur við á Grænlandi. Þessi brú nær ekki þangað. Eins og heimsmálunum er háttað þessa dagana er enginn akkur í því að telja hluta Íslands til heimsálfunnar Ameríku,“ ritar Páll á Facebook.
Telur hann hér fara alvarlegan hugtakarugling og ranga þýðingu úr ensku. Brúin umrædda sé sannarlega á skilum jarðskorpufleka en ekki á álfuskilum.
Flekarnir eru, að sögn Páls, annars vegar Norður-Ameríkuflekinn og hins vegar Evrasíuflekinn. Sá síðarnefndi innifelur mestan hluta Evrópu og Asíu.
Til ítrekunar verði að segja að Ísland tilheyri landfræðilega og menningarlega Evrópu. Vesturhluti Íslands situr á Norður-Ameríkuflekanum, austurhlutinn er á Evrasíuflekanum.
„Breiðum ekki út þann misskilning að hluti Íslands tilheyri Ameríku,“ segir Páll.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.