Fimm frummyndir, stórar vatnslitamyndir, úr leiðangri Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar 1752-1757, sem fjallað er um í máli og myndum í ferðabók þeirra, eru loks komnar í leitirnar eftir að hafa verið afskrifaðar um langt skeið.
Hrefna Róbertsdóttir, sagnfræðingur og þjóðskjalavörður, og Annríkishjónin Guðrún Hildur Rosenkjær og Ásmundur Kristjánsson gullsmiður, sérfræðingar í íslenskum búningum, staðfestu það eftir að hafa skoðað myndirnar á Ríkislistasafni Danmerkur í Kaupmannahöfn fyrir skömmu.
„Myndirnar eru ómetanlegar heimildir um klæðaburð og skart á Íslandi á þessum tíma og tímamótafundur fyrir okkur sem rannsökum búninga,“ segir Guðrún Hildur, sem er klæðskeri, kjólameistari og sagnfræðingur og hefur rannsakað íslenska búninga í yfir tvo áratugi.
Guðrún Hildur tók fyrst eftir myndunum á facebooksíðu Borgarsögusafnsins um miðjan febrúar. Starfskona safnsins hafði rekist á þær á netinu og sett þær inn sem skraut með texta um allt annað efni. „Ég þekki flestallt sem varðar búninga á Íslandi og sá strax að þetta væru frummyndirnar. Við Hrefna erum samstarfskonur þegar kemur að búningum á 18. öld og hún var sammála mér.“ Þær hafi því drifið sig út til Kaupmannahafnar og fengið grun sinn staðfestan.
Upphaflega voru myndirnar í skjalasafni danska Vísindafélagsins, sem stóð fyrir og styrkti leiðangur tvímenninganna til Íslands á sínum tíma, en einhverra hluta vegna hurfu þær þaðan og voru taldar glataðar frá því fyrstu koparstungurnar voru gerðar eftir þeim fyrir fyrstu útgáfu ferðabókarinnar í Danmörku 1772.
Í Ríkislistasafni Danmerkur voru þær skráðar sem myndir frá 1800 til 1814 og tengdar við „Olavius“ án frekari skýringa. Samkvæmt skriflegum upplýsingum frá starfsmanni safnsins vissi enginn frekari deili á þeim, aðeins að þær hefðu borist safninu fyrir 1887, að sögn Guðrúnar Hildar. „Allar aðrar myndir úr leiðangrinum voru til og voru prentaðar í fyrstu íslensku útgáfunni 1974.“
Fram að því hafi nýjar og nýjar koparstungur verið birtar í hinum ýmsu útgáfum bókarinnar eftir fyrstu koparstungunum. Skráningunni í safninu hafi nú verið breytt og eru þær tengdar við leiðangur Eggerts og Bjarna.
Tilgáta Guðrúnar Hildar og Hrefnu er að Jón Ólafsson, yngri bróðir Eggerts Ólafssonar, hafi teiknað myndirnar. Hann hafi starfað með leiðangursmönnum og þótt listhneigður. „Hann undirritaði myndir sínar Jonas Olavius að latneskum sið,“ segir Guðrún Hildur.
Koparstungurnar eru svarthvítar en í íslensku útgáfunni 1974 var ákveðið að lita þær. „Ég hef alltaf verið mjög ósátt við það því það er hálfgerð sögufölsun,“ segir Guðrún Hildur. Sú skýring hafi verið gefin að fatnaður í Þjóðminjasafninu hafi verið hafður til hliðsjónar en þar sé nær eingöngu fatnaður frá 19. öld. „Þá var allt önnur tíska en um miðja 18. öld og allt annar litaheimur. Vatnslitamyndirnar eru því greinilega upprunnar á 18. öld.“
Guðrún Hildur bendir á að myndirnar séu eitt og koparstungurnar annað. Koparstunga sé alltaf gerð eftir fyrirmynd en koparstungumaðurinn sé líka listamaður. Hann geti hagað sér að vild og því séu umræddar vatnslitamyndir ekki alveg eins og koparstungurnar. „Vatnslitamyndirnar eru ótrúlega nákvæmar og vel gerðar, nostrað er við hvern einasta hlut og útilokað er að þær séu falsaðar. Enginn getur hafa gert þær nema sá sem var uppi á þessum tíma og þekkti vel til.“
Í þessu sambandi segir Guðrún Hildur að hún hafi skoðað hverja mynd og hvert smáatriði mjög nákvæmlega. Á einni myndinni sé kona í hempu með nisti hangandi framan á sér. „Þegar ég rýndi í nistið sá ég að þar var Jesús á krossinum og ártalið 1760. Því drógum við þá ályktun að teikningarnar væru frá þeim tíma. Það stemmir líka við búningana og mörg önnur rök.“
Myndirnar eru mjög skýrar og varpa ljósi á skart, efni, liti og samsetningu búninga á Íslandi á 18. öld. Guðrún Hildur segir að enn sé samt mörgum spurningum ósvarað. Þar á meðal hvaða fólk sé á myndunum, búseta þess, staða þess í samfélaginu og fleira. Þær Hrefna hafi hafið rannsóknarvinnu til að svara þessum spurningum með það að leiðarljósi að gefa út niðurstöðurnar, þegar þær liggja fyrir, og endurgera búningana. „Við erum í mikilli heimildaleit,“ áréttar Guðrún Hildur.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.