Veðurhorfur um land allt eru nokkuð góðar nú um páskahelgina. Sólin ætti að láta sjá sig um nær allt land og hitastig að öllum líkindum nokkuð yfir frostmarki víða.
„Veðrið um allt land um páskahelgina verður nokkuð gott. Það verður þó éljagangur á Norðurlandi í dag en aftur á móti bjart og þurrt sunnanlands. Úrkoman fyrir norðan hættir svo í fyrramálið og þá er spáð þar hægum vindi. Það er allhvöss norðvestan átt á suðausturhorninu en það mun síðan lægja annað kvöld,“ segir Marcel de Vries, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Bjart veður er í væntum um mestallt land, spáin á laugardaginn er til að mynda á þann hátt að sól er spáð hvert sem litið er á landinu. Marcel segir að hugsanlega verði þó eitthvað um ský á norðurlandinu.
Samkvæmt veðurspá á páskadag verður þó nokkuð skýjað víðs vegar um landið. Hæsta hitanum er spáð á Vesturlandi en hitastigi þar er spáð allt að átta gráðum; hitastig gæti hins vegar verið við frostmark á norðausturhorninu.
Svipaða sögu er að segja af veðurspá fyrir annan í páskum, á mánudag. Alskýjað verður víðast hvar á landinu en léttskýjað á Vesturlandi. Hitinn gæti náð allt að átta gráðum við Kirkjubæjarklaustur.
Ef litið er á langtímaveðurspár er útlit fyrir það að í næstu viku muni draga úr næturfrosti á suðvesturhorninu og hitastigi yfir daginn er spáð í tveggja stafa tölu, það er vel við hæfi enda er sumardagurinn fyrsti á fimmtudaginn næsta. Marcel vill þó ekki lýsa því yfir að vorið sé í augsýn.
„Það verður í næstu viku tíu stig yfir daginn, það er ekki spáð frosti á næturnar en það er þó ekki útilokað að það verði eitthvað næturfrost seint á næturnar, sérstaklega við Víðidal.“
„Ég hef verið veðurfræðingur á Íslandi í fimm ár og ég þekki það að það er erfitt að fullyrða að vorið sé komið. Íslenskt vor er þannig að það kemur og svo fer það aftur. Þetta er samt þannig að það er smám saman að skríða að vori en mér finnst erfitt að segja að vorið sé komið því það getur farið aftur,“ sagði Marcel að lokum.