Alls hafa tíu manns hætt störfum hjá Faxaflóahöfnum undanfarin misseri og flestir vegna eineltis, lélegs starfsanda eða óásættanlegrar hegðunar yfirmanna í þeirra garð. Mörgum þeirra var sagt upp störfum. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins sem byggjast á samtölum við fyrrverandi starfsmenn fyrirtækisins.
Þeirra á meðal er Kristjana Óladóttir sem hóf störf í bókhaldi Faxaflóahafna í nóvember 2008 og segir hún í samtali við Morgunblaðið að hún hafi starfað við það í tvö ár.
Þegar staða gjaldkera losnaði var henni boðið það starf og gegndi hún því til ársins 2023. Í mars 2022 var Ragnheiður Ragnarsdóttir ráðin til starfa í fjármáladeild og seinna það ár var hún gerð að deildarstjóra í fjármáladeild, að sögn Kristjönu.
„Þá fór hún að taka mig á teppið, sem ég hafði aldrei lent í áður, og samskiptin voru ekki góð,“ segir Kristjana og segist hafa verið hundsuð ítrekað.
Breytt var um greiðslukerfi í Faxaflóahöfnum sem hún segist aldrei hafa fengið neina tilsögn í að nota og henni þannig gert erfitt fyrir að sinna störfum sínum.
Segist hún hafa kviðið fyrir hverjum vinnudegi og leitað eftir stuðningi hjá mannauðsstjóra sem hafi jafnan tekið upp hanskann fyrir deildarstjórann og það sama hafi verið uppi á teningnum þegar hún leitaði til hafnarstjóra.
Ástandið hafi verið þrúgandi og erfitt og segir Kristjana að þegar hún hafi leitað til Ragnheiðar deildarstjóra hafi engan stuðning verið þar að fá.
„Hún stóð bara upp og labbaði í burtu,“ segir Kristjana sem segir að hún hafi æpt á sig og talað niður til sín. Hún kveðst hafa verið komin í þrot og leitað til samstarfsmanns síns í raunum sínum sem hafi ráðlagt henni að tala við viðskiptastjóra sem þá hafði nýlega hafið störf hjá fyrirtækinu.
Sá hafi rætt við Gunnar Tryggvason hafnarstjóra í framhaldinu, en það hafi leitt til þess að hafnarstjóri hafi komið að máli við hana og sagt að samskiptin væru ekki að virka á milli hennar og Ragnheiðar, og kvartað hefði verið yfir því að hún vildi ekki vinna yfirvinnu.
Kveðst Kristjana þó aldrei hafa verið beðin um slíkt. Segir hún að hafnarstjóri hafi boðið sér að taka við öðru starfi innan Faxaflóahafna. Reyndist það vera hálfsdagsstarf í eldhúsi sem Kristjönu gjaldkera stóð til boða.
Kveðst hún hafa þraukað út daginn en bugast og leitað í framhaldinu til læknis og einnig sálfræðings sem greindi hana með áfallastreituröskun. Fór hún í veikindaleyfi af þeim sökum.
Fékk hún nokkru síðar símtal frá hafnarstjóra sem kunngjörði að hann væri búinn að ráða aðra manneskju í starf gjaldkera í hennar stað, en að tilboð um starf í eldhúsi stæði enn.
Nokkru síðar segir hún að hafnarstjóri hafi hringt í sig aftur og spurt hvort hún væri heima, því að uppsagnarbréf væri á leiðinni sem hún þyrfti að veita viðtöku. Tók það gildi 1. júlí 2023.
Guðbjörg Erlingsdóttir var ráðin til starfa í námunda við áramótin 2017/2018 og starfaði sem ritari og skjalavörður og í afleysingum á síma. Hún ber yfirmönnum sínum ekki vel söguna.
Guðbjörg segist hafa verið í kaffihléi í nóvember sl. ásamt tveimur öðrum starfsmönnum þegar Ragnheiður Ragnarsdóttir kom þar að. Guðbjörg var þá að lesa í blaði og segir Ragnheiði hafa komið að sér með tilburðum sem henni fundust ógnandi.
Segir Guðbjörg að hún hafi boðið sér góðan dag, en með þjósti. Daginn eftir fregnaði Guðbjörg að Ragnheiður hefði lagt fram formlega kvörtun yfir því að hún hefði ekki tekið undir kveðju hennar. Einnig segir Guðbjörg að Ragnheiður hafi lagt fram kvörtun yfir annarri manneskju fyrir þá sök eina að hafa staðið upp frá borði þegar hún kom þar að.
„Í framhaldinu var ég kölluð fyrir af Ólafi mannauðsstjóra og Gunnari hafnarstjóra og mér tilkynnt að komin væri fram formleg kvörtun yfir mér fyrir að hundsa Ragnheiði og bjóða henni ekki góðan daginn,“ segir Guðbjörg og nefnir að tveir starfsmenn hafi þó kært Ragnheiði fyrir einelti.
Segir Guðbjörg að þess hafi verið krafist að hún færi í viðtalstíma hjá samskiptaráðgjafa á sálfræðistofu sem og manneskja sú sem staðið hefði upp frá borðum. Hún sagðist ekki hafa góða reynslu af slíku, en óskaði þess við stéttarfélag sitt að fulltrúi þess yrði viðstaddur fundinn.
Þegar Guðbjörg var að tygja sig á fundinn með fulltrúa stéttarfélagsins fékk hún skilaboð frá mannauðsstjóra Faxaflóahafna um að samskiptaráðgjafi sálfræðistofunnar teldi ekki grundvöll til að hitta hana, en ef hún væri tilbúin til að bæta samskipti sín væru Faxaflóahafnir tilbúnar til að greiða fyrir einn fund með samskiptaráðgjafanum.
Telur Guðbjörg að ástæða þess hafi verið væri sú að hún ætlaði að fá fulltrúa stéttarfélagsins á fundinn með sér.
Þessir atburðir áttu sér stað í janúar sl. og í byrjun febrúar var Guðbjörg kölluð á fund hafnarstjóra og henni kunngjört að hún sýndi ekki nægan sáttavilja, sem hún vísaði á bug. Segir hún hafnarstjóra hafa tekið því illa og sagst vilja gera við hana starfslokasamning. Var henni sagt upp án þess að skýringar fylgdu, en enginn starfslokasamningur gerður.
Óskað var rökstuðnings fyrir uppsögninni, en þegar þær bárust þóttu þær ekki trúverðugar. T.a.m. var nefnd til sögunnar kæra fyrir einelti sem var ekki raunin þegar til átti að taka. Mál Guðbjargar er nú til meðferðar hjá stéttarfélagi hennar.
„Stjórnarmenn stíga vissulega almennt ekki inn í einstaka starfsmannamál en ég get staðfest að okkur hafa borist kvartanir,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og stjórnarmaður í Faxaflóahöfnum.
Hún var spurð hvort stjórn félagsins myndi bregðast við vegna kvartana fyrrverandi starfsfólks Faxaflóahafna yfir framkomu yfirmanna í þeirra garð, en fram hefur komið að kvartað hefur verið yfir þeim við stjórnarmenn fyrirtækisins sem og kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem eiga fyrirtækið.
„Þegar erindi af þeim toga hafa náð tilteknum fjölda tel ég almennt ástæðu til að setja af stað vinnustaðagreiningu. Ég reikna með því að málið verði á dagskrá næsta stjórnarfundar, nú eftir páska,“ segir hún.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.