„Við byrjuðum þetta verkefni fyrir fjórum árum, upphaflega átti þetta bara að vera í búðum, en við tókum smá stefnubreytingu,“ segir Unnar Helgi Daníelsson, frumkvöðull og innsti koppur í búri Thor's Skyr í heitu eyðimerkurlandslagi Arizona-ríkis í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í ríkishöfuðborginni Phoenix, en dyr útibús skyrveldisins íslenska hafa þegar verið opnaðar í Los Angeles og fram undan er meðal annars opnun í annarri Arizona-borg, Scottsdale, auk fleiri staða í Phoenix.
„Íslenskur veitingamaður hefur vegferð sína að því að bjóða Bandaríkjamönnum hollan skyndibita við Grand Avenue í miðbæ Phoenix,“ skrifar staðarmiðillinn Phoenix New Times á vefsíðu sína.
„Þetta er í grunninn gerjuð mjólk,“ segir Unnar í viðtali við PHT í tilraun sinni til að útskýra fyrirbærið skyr sem er íbúum Arizona álíka framandi og Íslendingum er djúpsteikt Snickers-súkkulaði sem nýlega fór með himinskautum á hinni árlegu og annáluðu Arizona State Fair-hátíð.
Áfram heldur frumkvöðullinn við staðarblaðið og segir skyr hafa haldið lífinu í Íslendingum kalda vetrarmánuði frá örófi alda, ríkulegt próteininnihald þess og takmarkaður sykur sé meðal þess sem greini það frá öðrum og skyldum mjólkurvörum.
Við mbl.is segir Unnar að draumur tengdur verkefninu sem upphaflega átti að vera í búðum hafi verið að venda kvæðinu gamla í kross og opna eigin veitingastaði. Vitanlega er æskilegt að þrumuguðinn Þór eigi þá aðild að nafninu, holdgervingur hollustu og hreysti í norrænum goðafræðum sem einkum hafa birst Bandaríkjamönnum í misgáfulegum ofurhetjukvikmyndum þar sem frumheimildin Snorra-Edda er mistúlkuð af áfergju.
„Ég fór til Phoenix til að skoða aðstæður þar, við opnuðum þrjá staði þar í fyrradag,“ segir Unnar og upp frá því hafi sprottið hugmynd um að opna eins konar framleiðslueldhús fyrir staðina þar í borg. Stefnan er sett á opnun fimm staða í borginni í samstarfi við líkamsræktarstöðvakeðjuna LA Fitness „Miklu færri en maður heldur vita hvað skyr er svo það er gaman að kynna það fyrir fólki sem er mjög áhugasamt, sérstaklega um íslensku tenginguna,“ heldur hann áfram.
Er flókið að koma opnun íslenskra veitingastaða á koppinn í Bandaríkjunum?
„Nei nei, þetta er miklu minna mál en maður gerir sér grein fyrir,“ svarar Unnar, „ég hef haldið erindi fyrir Íslandsstofu þar sem ég hef sagt öðrum frumkvöðlum að stökkva bara á þetta og láta drauma sína rætast því þetta er miklu einfaldara en maður heldur.“
Unnar er enginn nýgræðingur í bransanum, en hann hleypti safakeðjunni Joe & The Juice af stokkunum á Íslandi árið 2013 og nýtast tengsl frá því verkefni við opnun Þórsskyrsins nú. „Þá var ég að vinna með aðila sem leiðir þetta verkefni núna og er með mikla reynslu. Hann leiðir þessa seiglu með mér auk þess sem fyrrverandi öldungadeildarþingmaður Idaho er forstjóri fyrirtækisins, en hann er einnig forstjóri PitaPit sem telur um 600 staði, svo þeir hafa alveg gert þetta áður sem taka þátt í þessu með sér,“ segir hann.
Áhersla sé á að halda verkefninu skemmtilegu, að minnsta kosti í byrjun, „þangað til þetta verður of mikill jakkafatabissness“, segir Unnar og hlær við. Hann er spurður um viðtökur skyrsins í Arizona þótt skammt sé frá opnun.
„Fólki þykir gaman að fá eitthvað íslenskt inn í hverfin og við erum að stíla inn á hollustuna sem er ábótavant í bandarísku samfélagi og fólk er mjög ánægt. Good Morning Arizona fjallaði um okkur í síðustu viku og var með beina útsendingu frá staðnum. Við höfum ekki þurft að sækja í neina athygli, hún kemur alveg af sjálfu sér,“ svarar frumkvöðullinn íslenski.
Hverjar eru framtíðaráætlanir fyrirtækisins?
„Við erum skyrfyrirtæki sem ætlar sér meiri umsvif,“ svarar Unnar og segir frá hliðarverkefni, svokölluðum snjallkælum, litlum skyrbörum sem verði víða um Phoenix, svo sem á vinnustöðum. „Þangað munum við koma daglega með tilbúnar skyrskálar og hollan skyndibita. Við ætlum að ná fótfestu á sem flestum stöðum með snjallkælana, „franchise“ [nytjaleyfi til rekstrar keðjustaða] er náttúrulega bara framtíðin,“ segir Unnar Helgi Daníelsson að lokum sem tekið hefur að veita íslensku skyri um heit og sólbökuð ríki Bandaríkjanna.