Faxaflóahafnir hafa unnið að orkuskiptum ökutækja á undanförnum árum. Í lok árs 2024 voru 19 af 28 ökutækjum fyrirtækisins svokölluð hreinorkutæki.
Skipti yfir í rafmagn hafa þýtt að innkaup á eldsneyti hafa dregist saman um 43% á milli áranna 2021 og 2023, að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins.
Nú síðast hafa Faxaflóahafnir bætt rafmagnsvörubíl við ökutækjaflota hafnarinnar, sem sinnir víðfeðmu starfssvæði í Reykjavík, Akranesi, Grundartanga og Borgarnesi alla daga ársins.
Hinn nýi rafmagnsvörubíll, sem er af gerðinni Scania P25 B6x2*4NB, mun draga úr kolefnisspori fyrirtækisins um allt að 18 tonn á ári og úr árlegum innkaupum á dísilolíu um 40% samanborið við árið 2023.
Scania-vörubíllinn er þriggja öxla með föstum sex metra palli og krana sem getur lyft upp í 17,5 metra hæð og 900 kg. Vörubíllinn er 100% rafknúinn með 230 kW afli, 310 hestöflum og heilum níu rafgeymum.
Hlutverk Faxaflóahafna er að reka öruggar, grænar og skilvirkar hafnir, segir á heimasíðunni.
Nýi rafmagnsvörubíllinn sé þannig hluti af stærra verkefni fyrirtækisins um að innleiða vistvænni tæknilausnir í daglegum rekstri og stefna að því að minnka kolefnisspor í innri rekstri og tryggja að öll ökutæki fyrirtækisins verði hreinorkutæki fyrir árið 2030.
„Við leggjum okkur fram við að vera leiðandi í sjálfbærum lausnum á hafnarsvæðum og munum halda áfram að fjárfesta í grænum lausnum,“ segir Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, umhverfis- og gæðastjóri Faxaflóahafna, í viðtali á heimasíðu fyrirtækisins.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.