Rafmennt kaupir Kvikmyndaskólann

Kvikmyndaskóli Íslands fór í gjaldþrotaskipti í mars.
Kvikmyndaskóli Íslands fór í gjaldþrotaskipti í mars. Ljósmynd/Aðsend

Raf­mennt mun taka við rekstri Kvik­mynda­skóla Íslands, sem varð gjaldþrota í mars, en  nem­end­ur munu þurfa að kveðja gamla hús­næðið.

Á miðviku­dag komst Raf­mennt, fræðslu­set­ur Rafiðnaðar­ins, að sam­komu­lagi við þrota­bú Kvik­mynda­skóla Íslands um kaup á nafni, vörumerki, búnaði og öðrum verðmæt­um skól­ans.

Skól­inn grein­ir frá þess­ari ákvörðun á vef sín­um og seg­ir hana marka stórt skref í átt að því að tryggja áfram­hald­andi kvik­mynda­mennt­un á Íslandi eft­ir gjaldþrot Kvik­mynda­skóla Íslands í mars.

Höfnuðu til­boði ráðherra

Mennta­málaráðherra hafði ætlað að flytja kennsl­una yfir í Tækni­skól­ann en for­svars­menn Kvik­mynda­skól­ans og nem­end­ur hans lýstu mik­illi óánægju með þá ákvörðun og höfnuðu nem­end­ur því til­boði.

Nú hef­ur þrota­bú skól­ans náð sam­komu­lagi við Raf­mennt, sem fel­ur aft­ur á móti í sér að hætt verður við að halda starf­sem­inni áfram í hús­næði skól­ans við Suður­lands­braut. Þess í stað hófst strax vinna við flutn­ing starf­sem­inn­ar og stóð hún yfir frá kvöldi 16. apríl og áfram í dag, seg­ir í til­kynn­ingu Raf­mennt­ar.

Fund­ir með nem­end­um, starfs­fólki og kenn­ur­um skól­ans séu fyr­ir­hugaðir 23. apríl og þar verði farið yfir næstu skref og stefnt er að því að kennsla geti haf­ist að nýju eins fljótt og und­ir­bún­ings­vinna leyf­ir. 

„Tæki­færi til að efla kvik­mynda­nám á Íslandi“

Raf­mennt seg­ist jafn­framt hafa lýst yfir vilja sín­um til að styðja við starfs­fólk skól­ans. Bak­land Raf­mennt­ar og kjara­deild fag­fé­lag­anna muni vinna að því að koma fram kröf­um á hend­ur þrota­búi skól­ans og, eft­ir at­vik­um, sækja bæt­ur til Ábyrgðarsjóðs launa.

„Stjórn Raf­mennt­ar lít­ur á þetta sem tæki­færi til að efla kvik­mynda­nám á Íslandi,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

„Með því að sam­eina nám Kvik­mynda­skóla Íslands, fyr­ir­liggj­andi kvik­mynda­tækni­nám Raf­mennt­ar og sam­starf við aðra fræðsluaðila í geir­an­um tel­ur stjórn Raf­mennt­ar að grund­völl­ur sé fyr­ir öfl­ugt, sam­hæft nám sem þjón­ar kvik­mynda­grein­inni í framtíðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert