Ísafjarðarbær er smekkfullur af fólki um helgina þar sem tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður stendur yfir. Hátíðin hefst í dag og búast má við dúndrandi stemningu langt fram á nótt, bæði í kvöld og á morgun.
Þetta er 21. skipti sem hátíðin er haldin og Kristján Freyr Halldórsson rokkstjóri segir að mikil umferð sé um bæinn.
„Ég er fyrir utan sjoppu hérna og ætlaði að fá mér að borða en ég held að ég verði að snúa við af því að það er svo stappað,“ segir Kristján í samtali við blaðamann þegar mbl.is slær á þráðinn hjá honum.
Veðrið leikur auk þess vel við bæinn í dag. „Glimrandi sól og heiðskírt, þannig að það er rosalega góð stemning,“ segir Kristján.
Barnatónleikar hófust einnig í Edinborgarhúsinu kl. 14 í dag, þó ekki á vegum hátíðarinnar sjálfrar.
Formleg dagskrá hátíðarinnar hefst í Kampaskemmunni í kvöld, þar sem rokkhljómsveitin Geðbrigði, sem vann Músíktilraunir síðustu helgi, hleypir hátíðinni af stað kl. 20. Stærri númer fylgja svo í kjölfarið, þar á meðal Írafár, Múr, Apparat, JóiPé og Króli.
Kristján kveðst sérstaklega spenntur fyrir heimamönnunum sem spila; hljómsveitinni Gosa sem spilar í kvöld og Salóme Katrínu sem spilar á morgun. Þá nefnir hann einnig raftónlistarsveitirnar Amor Vincit Omnia og FM Belfast, sem spila á morgun auk Unu Torfa og hljómsveitarinnar Reykjavíkur!.
„Þetta getur ekki klikkað,“ segir rokkstjórinn. „Það er nóg á dagskrá fyrir alla fjölskylduna.“
Þegar formlegri dagskrá fjölskylduhátíðarinnar lýkur upp úr miðnætti dreifist stemningin víðar um bæinn á viðburði sem ekki eru á vegum hátíðarinnar. Svo dæmi séu nefnd munu Elvar, Daniil og fleiri rapparar troða upp í Edinborgarhúsinu í nótt á meðan Bríet heldur uppi stemningunni á Vagninum á Flateyri.
„Ísafjörður er svolítið heimili páskanna,“ segir Kristján Freyr en auk hátíðarinnar er skíðavika á Ísafirði. Reyndar er lítill snjór í brekkunni, þannig að skíðagarparnir skila sér frekar í bæinn.
Sem fyrr segir er mikil stemning í Ísafjarðarbæ enda sól á lofti. „Það eru einhvern veginn allir að sleikja sólina,“ segir Kristján.
„Það er rosalega erfitt að vera í fýlu. Það er ekki hægt.“