„Eins og ráðherrann sagði, þetta er efnahagsleg sóun,“ segir Stefán Þórarinsson og er þar að taka undir orð fjármálaráðherra Daða Más Kristóferssonar í grein sem birtist í desember 2021 og fjallaði um strandveiðar.
„Þetta er auðvitað hræðileg efnahagsleg sóun og hún er svo margföld. Það er sóun í fjárfestingu á veiðigetu sem við þurfum ekki því eigum nóga veiðigetu og svo er hún auðvitað sóun í auðlindinni á vissan hátt því hún fer ekki í að ná hámarks arði út úr stóra kerfinu,“ segir Stefán Þórarinsson gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag þegar rætt er um strandveiðar smábáta við Ísland. Hann bætir við að kerfið sé líka sóun á vinnuafli í ljósi þess að við erum þjóð sem flytur inn þúsundir manna árlega til að vinna hin ýmsu störf.
Stefán hefur víðtæka reynslu í sjávarútvegi og kom að því að setja kvótakerfið á laggirnar á síðustu öld. Hann hefur unnið sem ráðgjafi stjórnvalda í fjölmörgum löndum þegar kemur að sjávarútvegi.
Eru strandveiðar ekki góður kostur?
„Nei, nei. Ég er alveg klár á því að þetta endar alveg nákvæmlega svona. Það verður á ákveðnum tímapunkti ákveðið að loka því þetta er algerlega opið kerfið og það geta allir farið inn í þetta. Því verður einn góðan veðurdaginn lokað og þá aukast verðmæti þessara báta bara við það eitt og sér því þá hafa þeir eitthvað sérleyfi sem enginn annar hefur en þeir sem eru í hópnum. Svo eftir svolítinn tíma þá fara menn að tala um að þetta sé nú ekki hægt og það þurfi að setja á þetta kvóta og skipta pottinum niður á þá og það verður gert. Þá komast menn að þeirri niðurstöðu að það verði að hagræða í þessum hópi. Þetta séu allt of margir bátar og leyfa flutning á milli báta. Þá byrjar salan aftur. Þá get ég lofað þér því að þessir bátar meira og minna hverfa. Svo koma einhverjir sniðugir stjórnmálamenn og opna kerfið aftur. Búa til eitthvað enn og aftur. Svona hefur þetta verið í 35 ár.“
Stefán hefur séð einmitt þetta ferli endurtekið margsinnis frá því að kvótakerfið var tekið upp. Honum telst til að 1.200 bátar hafi verið seldir út kerfinu undir þeim formerkjum sem lýst er hér að ofan. „Þetta þýðir það að það eru um þrír bátar á mánuði að meðaltali allan tímann að fara út. En væntanlega er stór hluti af þeim sem fer alltaf inn aftur. Þetta eru ekki tólf hundruð bátar í heildina.“
Eftir að viðtalið við Stefán var tekið rak hann augun í lítinn fallegan strandveiðibát á facebook. Stefán fletti upp skráningarnúmeri bátsins og kom í ljós að hann hafði sjö sinnum verið seldur út úr einhvers konar fyrirkomulagi á veiðikerfi smábáta. Þessi bátur er í dag að undirbúa strandveiðar. Stefán vildi ekki nafngreina bátinn.
Þessir síendurteknu hringir sem hafa orðið í smábátakerfum áratugum saman og Stefán vekur hér athygli á segir hann að sé ekki góður vitnisburður fyrir stjórnmálamenn. „Þeir eru að hugsa um eitthvað annað en hag þjóðarinnar.“
Ertu að segja að strandveiðar sem verða hér við land í sumar sé bara einhver atvinnubótavinna?
„Já, já. Þetta er ekkert annað. Það sjá það náttúrulega allir að það er enginn sem hefur ársviðurværi af því að veiða í fjörutíu daga. Það er bara alveg útilokað.“
Í framhaldi af þessu grípur Stefán til samlíkingar og nefnir til sögunnar öðruvísi auðlind. „Við skulum segja að við ættum hérna rosalega kolanámu. Mundum við koma hérna með þúsund kalla með litlar fötur og haka og biðja þá um að pikka þetta upp og koma með í skömmtum upp. Nei. Við myndum aldrei láta okkur detta það í hug. Auðvitað þurfum við stórvirkar, afkastamiklar vinnuvélar.“
Viðtalið við Stefán geta áskrifendur Morgunblaðsins nálgast í gegnum hlekkinn hér að neðan.