Kolfinna Jóhannesdóttir, skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, segist ekki túlka frumvarp mennta- og barnamálaráðherra með þeim hætti að verið sé að víkja frá þeirri meginreglu að litið sé til námsárangurs við innritum á einstaka námsbrautir í framhaldsskóla.
„Ég upplifi frekar að þarna sé verið að skýra og skjóta frekari undirstöðum undir það sem hefur verið að gerast í samfélaginu, að einstakir skólar séu með fjölbreyttara námsframboð og taki inn fjölbreyttari nemendahóp,“ segir Kolfinna í samtali við mbl.is.
Hún segir það vissulega enn þá vera í aðalnámskrá grunnskóla að kveðið sé á um ákveðnar einkunnir til að geta hafið nám á öðru hæfniþrepi, þ.e. að komast inn á bóknámsbraut til stúdentsprófs. Skólar geti þó líka sett ákveðin viðmið á öðrum brautum.
„En mér finnst þetta meira lúta að því að styðja það sem hefur verið að gerast, þ.e.a.s. að skólar taki inn fjölbreyttari nemendahóp, hver og einn fyrir sig.“
Nefnir hún að Kvennaskólinn hafi nýlega farið af stað með starfsbraut og íslenskubraut fyrir nemendur af erlendum uppruna.
„Ég skil frumvarpið þannig að það sé miklu frekar verið að styðja við þetta heldur en að námsárangur verði ekki það sem miðað er við sem inntökuskilyrði á einstaka námsbrautir.“
Þess skal getið að framhaldsskólum er þegar heimilt að líta til annarra þátta en einkunna við val á nemendum, samkvæmt reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla.
Taki frumvarpið gildi er heimildin aftur á móti færð í lög, en túlkar Kolfinna það ekki sem stórar breytingar.
„Ég skil frumvarpið alls ekki þannig að það sé verið að leggja það til að þegar fólk er innritað í framhaldsskóla að þá sé ekki litið til námsárangurs. Ég skil það þannig að það sé verið að styðja við heimildir skóla til þess að innrita fjölbreyttan nemendahóp inn á mismunandi námsbrautir. Það er bara verið að setja í skýrari orð það fyrirkomulag sem er í dag og styðja við þróun sem er í gangi.“