Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Reykjavíkur og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, geldur varhug við áformum Veitna um að banna bílaumferð almennings um Heiðmörk. Hún segir að menn þurfi að staldra við og tryggja fyrst aðkomuna að Heiðmörk áður en tilkynnt sé bann við bílaumferð.
„Það er mjög mikilvægt að standa vörð um vatnsvernd í Heiðmörk en það er líka mikilvægt að standa vörð um Heiðmörk sem helsta útivistarsvæði Reykvíkinga. Það þarf að tryggja að fólk komist að svæðinu. Áður en menn geta farið að loka einhverju þarf að tryggja aðkomuna,“ segir Ingibjörg og bendir á að eins og sakir standi sé ekki einu sinni hægt að fara með strætó að Heiðmörk.
Veitur gera ráð fyrir bílastæðum í jaðri útivistarsvæðisins og segja að ástæðan fyrir banni við bílaumferð almennings sé að tryggja þurfi vatnsverndarsvæðið. Í tilkynningu Veitna kemur fram að verði áherslur Veitna að veruleika verði almennri umferð bíla stýrt inn á nokkur ný bílastæði „en staðsetningar þeirra eru óútfærðar“.
Gert er ráð fyrir að bílastæðin verði á stöðum þaðan sem aðgengi að göngu- og hlaupaleiðum og öðrum vinsælum útivistarsvæðum er gott og að gestir Heiðmerkur þurfi ekki að ganga langan veg til að njóta útivistar.
„Ég held að það orki almennt tvímælis að loka fyrir umferð útivistargesta að Heiðmörk, en ef menn vilji takmarka umferðina verður fyrst að koma fyrir einhverjum nothæfum bílastæðum, og þau eru ekki til,“ segir hún.
Takmarkanir á umferð í Heiðmörk eru ekki nýtilkomnar. Nú þegar hafa Veitur bannað Heiðmerkurhlaupið og hafa heimsóknir leikskólabarna verið takmarkaðar auk annarra viðburða sem hafa verið vinsælir í Heiðmörk.
„Ef það á að takmarka umferð þannig að rútur geti ekki farið þarna er búið að loka á skólabörn, leikskólabörn og aldraða og ýmsa hópa sem eiga að geta komist í Heiðmörkina,“ segir Ingibjörg og bætir við:
„Okkur finnst öllum mikilvægt að standa vörð um vatnsverndina en það er hægt að gera það án þess að grípa til svona drastískra ráðstafana. Það á sérstaklega við þegar ekki er búið að ganga frá skipulagi, sem væri þá um hvernig eigi að mæta fólki þannig að það komist á svæðið,“ segir Ingibjörg, en deiliskipulagsvinna á vegum borgarinnar vegna Heiðmerkur stendur yfir, þar sem verið er að skoða nánari útfærslur.
Hún segir aðspurð að menn geti ef til vill sett sér framtíðarmarkmið um að banna umferð einkabíla en þá þurfi að vinna slíkt í áföngum „en ekki að taka svona ákvarðanir áður en búið er að segja fólki hvernig það eigi að hafa aðgengi að svæðinu“.
Í tilkynningu Veitna segir að umferð farartækja á vegum Skógræktarinnar og Veitna verði áfram leyfð innan svæðisins.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.