Upphaflega átti byggðakvóti að vera til fimm ára með mögulegri framlengingu til tveggja ára. Þetta var ákveðið 1999. Nú 26 árum síðar lifir hann enn og hefur margfaldast. Jafnvel hafnlausar byggðir fá úthlutun.
Stefán Þórarinsson er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og fer þar yfir þær miklu breytingar sem urðu á íslenskum sjávarútvegi þegar kvótakerfið var tekið upp 1983. Stefán rifjar upp ástæður þess og aðdraganda af hverju þetta kerfi var tekið upp og hver staðan var á sjávarútvegi á þeim tíma. Stefán kom að fyrstu úthlutun kvóta og sat í ýmsum nefndum sem settar voru á laggirnar í árdaga kerfisins. Byggðakvóti kom til árið 1999. Stefán segir að álögur sem þá voru settar á útfluttan fisk hafi leitt til þess að það myndaðist sjóður, af kvóta og gripið hafi verið til þess ráðs að gera þann sjóð að einskonar ráðherrakvóta. „Já, já. Þetta var ráðherrakvóti. Tólf þúsund tonn. Nú er þessi ráðherrakvóti sem að fór svo í að vera byggðakvóti hér og þar og allskonar. Nú er hann að verða 28 - 29 þúsund tonn í dag, 5,3 prósent,“ upplýsir Stefán í viðtalinu.
Stefán er í framhaldi af þessu spurður út í byggðakvóta, hvernig hann hafi komið til.
„Byggðastofnun er sett í þetta vegna þess að það voru sárar kvartanir á nokkrum stöðum. Þeir greina ellefu byggðarlög sem sannarlega væri einhvers virði að gera eitthvað fyrir. Það vildi þannig til að ég var beðinn um að vera sérlegur ráðgjafi Byggðastofnunar í þessu verkefni. Ég sinnti þessu í þessi sjö ár. Það var ákveðið að gera átak á þessum tilteknu stöðum í fimm ár með hugsanlegri tveggja ára framlengingu og eftir það var bara málið búið. Við höfðum nú ekki nema 1.500 þorskígildistonn, þannig að það var nú úr litlu að spila. Því var spilað út þannig að það var reynt að nota þetta sem beitu til þess að fá menn til þess að landa inn í vinnslurnar á þessum stöðum og skapa vinnu,“ segir Stefán í viðtalinu.
Hann skrifaði lokaskýrslu um þetta verkefni sem lögð var fram á Alþingi. „Ég reiknaði með að þá væri þetta bara búið. Þannig var það hugsað. En nú hefur þetta allt magnast upp og núna sé ég það að Byggðastofnun ein og sér, hún er komin með þrjátíu og eitthvað staði.“
Stefán nefnir til sögunnar staði eins og Eyrarbakka, Stokkseyri og Garðinn. Hann rifjar upp að sjálfur var hann á sjó fyrir margt löngu frá Eyrarbakka en segir svo, „Guð hjálpi þér. Það hefur ekki nokkur maður verið þar á sjó í mörg mörg ár. Það er ekki höfn þar. Hún er ónýt.“
Viðtalið við Stefán er aðgengilegt í heild sinni fyrir áskrifendur Morgunblaðsins. Hlekkurinn er hér að neðan.