Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, og eiginmaður hennar, Hafþór Ólafsson, hafa sett hús sitt í Garðabæ á sölu. Húsið hefur verið nokkuð umdeilt eins og fyrrverandi ráðherrann sjálfur, en hjónin höfðuðu mál gegn ríkinu árið 2023 vegna uppboðs sýslumanns á húsinu árið 2017.
Þau töpuðu málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í mars.
Ásett verð er 174,9 milljónir króna en Ásthildur og Hafþór keyptu húsið á 55,4 milljónir árið 2007. Misstu þau það árið 2017 þegar það var selt á uppboði en keyptu það af Arion banka 2019. Þá var kaupverðið 55,5 milljónir króna.
Vísir greindi fyrst frá.
Ásthildur var mennta- og barnamálaráðherra í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur sem tók við störfum í desember. Ásthildur sagði af sér sem ráðherra í mars í kjölfar þess að greint var frá því í fjölmiðlum að hún hefði eignast barn með barnungum pilti þegar hún var sjálf á þrítugsaldri, fyrir um 30 árum síðan.
Hún sagði ekki af sér þingmennsku en hefur verið í leyfi frá þingstörfum síðan málið kom upp.
Fasteignavefur mbl.is: Háhæð 1