Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að starfsánægja hjá fyrirtækinu hafi aukist síðustu ár. Enn fremur segir hann að starfsmenn sem hafi lagt fram kvartanir gagnvart stjórnendum hafi fengið viðeigandi og viðurkennda málsmeðferð.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gunnari.
Á síðustu dögum hefur Morgunblaðið fjallað um óánægju meðal fyrrverandi starfsmanna Faxaflóahafna, en alls hafa tíu manns hætt störfum hjá Faxaflóahöfnum undanfarin misseri, flestir vegna eineltis, lélegs starfsanda eða óásættanlegrar hegðunar yfirmanna í þeirra garð.
Mörgum þeirra var sagt upp störfum. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins sem byggjast á samtölum við fyrrverandi starfsmenn fyrirtækisins.
Í blaðinu á fimmtudaginn var rætt við tvo starfsmenn sem lýstu erfiðum samskiptum við yfirmenn Faxaflóahafna.
„Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag [fimmtudaginn] er rætt við tvo fyrrverandi starfsmenn á skrifstofu félagsins sem lýsa erfiðum samskiptum á þeim tíma sem mestu breytingarnar fóru fram.
Umkvartanir sem bárust stjórnendum á þessum tíma voru settar í viðeigandi og viðurkennda ferla og auk þess var leitað aðstoðar hjá virtri sálfræðistofu. Niðurstaða þeirrar vinnu var afgerandi og ákvarðanir stjórnenda í framhaldinu meðal annars teknar á þeim grunni,“ segir Gunnar í tilkynningunni.
Morgunblaðið hefur ítrekað haft samband við Gunnar en hann neitar að gefa kost á sér til viðtals. Í tilkynningunni segir að árið 2021 hafi skipulagi Faxaflóahafna verið formlega breytt og þá hafi þáverandi stjórnendur hafist handa við breytingaferli sem nú sjái fyrir endann á.
„Starfsánægja hefur aukist, og fjárhagsleg afkoma félagsins og staða hefur aldrei verið betri. Alvarlegar og síendurteknar athugasemdir innra eftirlits og endurskoðanda frá fyrri tíð heyra sögunni til og þar hefur verið brugðist við með bættu verklagi og kerfum sem uppfylla kröfur sem eðlilegt er að gera til þjónustufyrirtækis í almannaeigu,“ segir í tilkynningunni.
„Slíkum breytingum geta fylgt erfiðar ákvarðanir, ekki síst þegar kemur að starfsmannamálum. Sumir kjósa að hverfa til annarra starfa en aðrir þurfa að víkja vegna breytinga. Ekkert er við það að athuga og eðlilegt að uppsagnir sem stjórnendur telja nauðsynlegar til að ná settum markmiðum valdi óánægju hjá þeim sem fyrir þeim verða.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.