Víðáttumikill hæðarhryggur er norður í hafi og teygir hann sig yfir landið. Gefur hann yfirleitt mjög hægan vind á páskadag, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
„Lægð suðvestur af landinu veldur þó austankalda eða -strekking allra syðst. Skýjað með köflum víða um land og lítilsháttar él á stöku stað, en yfirleitt léttskýjað vestantil.“
Hiti frá frostmarki á Austurlandi upp í 10 stiga hita suðvestan til. Líkur eru á næturfrosti í flestum landshlutum.
„Á morgun, annan páskadag og þriðjudag, er ekki að sjá neinar breytingar að kalla, þ.e.a.s. útlit fyrir áframhaldandi rólegheitaveður.“