Manninum sem var handtekinn eftir að kona slasaðist í heimahúsi í uppsveitum Árnessýslu hefur verið sleppt úr haldi og ekki er talið að neitt saknæmt hafi valdið áverkum konunnar.
Þetta segir Garðar Már Garðarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Á ellefta tímanum barst tilkynning um konu með skerta meðvitund í heimahúsi vegna höfuðáverka. Maðurinn sem er búsettur í húsinu var handtekinn til að varpa ljósi á aðstæður þar sem ekki var hægt að ræða við konuna.
„Rannsóknin leiddi það í ljós að þarna var líklega ekkert saknæmt,“ segir Garðar og bætir við:
„Það liggur ekki fyrir að neitt saknæmt hafi átt sér stað. Hún hefur fallið á höfuðið.“
Eins og fyrr segir var konan með skerta meðvitund þegar lögregluna bar að garði en nú er hún komin til meðvitundar.