„Við héldum að nú færi að rofa til, hann væri kominn sem barn og fylgdarlaus, en það virtist ekki telja neitt í þeirra augum,“ segir Svavar Jóhannsson, en þau Sonja Magnúsdóttir eiginkona hans, íbúar í Hafnarfirði, eru með böggum hildar yfir framgöngu íslenskra yfirvalda í máli kólumbíska drengsins Oscars Andres Florez Bocanegra sem þau vilja allt vinna til að geta tekið að sér.
Oscar, sem var til umfjöllunar á mbl.is þegar lögregla sótti hann inn á salerni Flensborgarskólans um miðjan október í fyrra til þess að vísa honum úr landi ásamt ofbeldisfullum föður hans, átti sautján ára afmæli í gær, laugardag fyrir páska.
Hann kom aftur til landsins eftir fyrri brottvísun þegar Svavar og Sonja sóttu hann til Kólumbíu í fyrra og nú liggur það fyrir hver afmælisgjöf Útlendingastofnunar var: Oscari hefur verið vísað úr landi á nýjan leik og skal hann út á þriðjudaginn, að þessu sinni án möguleika á að sækja um vernd á Íslandi að nýju.
„Úrskurðurinn var á þá leið að hér væri um endurtekna umsókn að ræða og þar af leiðandi geti hann ekki fengið nýja umfjöllun um sitt mál,“ heldur Svavar áfram og bendir á brotalöm á niðurstöðunni.
„Í fyrsta lagi sótti hann aldrei um heldur pabbi hans, hann var bara barn sem fylgdi með. Til að fá nýja umfjöllun þarf tvennt að koma til, hann þarf að vera staddur á landinu, sem hann tvímælalaust er, hitt í lögunum er að eitthvað þarf að vera nýtt í málinu sem gæti breytt fyrri niðurstöðu og hann uppfyllir það skilyrði líka. Hann er núna einn síns liðs og barn sem þarf að vernda samkvæmt alþjóðalögum og þeim sáttmálum sem við göngumst undir, en Útlendingastofnun tekur það ekki gilt og vill meina að ekki sé um nýjar aðstæður að ræða þótt hann sé nú hér einn,“ segir hann.
Nú séu örfáir dagar eftir af þeim fimmtán daga fresti sem stofnunin veitti Oscari í úrskurði sínum til að hafa sig af landi brott. „Það eitt og sér er skrýtið, hann er sextán ára gamall og ekki með eina krónu meðferðis. Hann á samt að fara sjálfviljugur úr landi, en barn getur ekki farið upp í flugvél og ferðast eitthvað. Þannig að hann getur í raun ekki orðið við úrskurðinum þó að við leggjum það til hliðar að úrskurðurinn sé út í hött,“ segir Svavar sem undrast vinnubrögðin.
Alvarlegast í málinu telur Svavar að Oscar er fylgdarlaust barn á flótta og í mikilli hættu í Kólumbíu, en þar í landi er fjölskylda drengsins eftirlýst á pappírum vægðarlausrar mafíu sem á sínum tíma heimtaði svokallað verndargjald af rekstri föður Oscars sem hann að lokum gat ekki staðið í skilum með. Skuldin fyrnist ekki þótt rekstri sé hætt og lifa Oscar og foreldrar hans í skugga drápshótana er fylgt verði eftir hvar sem þau hittist fyrir.
„Hann á engan að þannig að ef hann verður sendur út fer hann í hendur barnaverndaryfivalda þar, sem setja hann væntanlega bara á munaðarleysingjahæli í stað þess að honum leyfist að dveljast hjá fósturforeldrum á Íslandi sem elska hann og vilja honum allt það besta,“ segir fósturfaðirinn sem kveður þau hjónin ekki fá að ræða við einn eða neinn í véum Útlendingastofnunar, þau hafi aðeins fengið úrskurðinn sendan.
Oscar hefur að sögn Svavars verið í kvíðakasti síðan boðskapur stofnunarinnar barst. Oscar hafi sinnt námi sínu í Flensborgarskólanum af elju og verið áhugasamur um að mennta sig. „Eftir að hann fékk þennan úrskurð hætti hann að fara í skólann, hans síðasta minning þaðan er þegar lögreglan sótti hann inn á klósett þar. Þetta hefur alveg sett hann út af sporinu,“ segir Svavar um fóstursoninn kólumbíska sem ekki þorir lengur að mæta í íslenskan framhaldsskóla.
Þá gagnrýnir Svavar barnavernd Hafnarfjarðar og segir Oscar hafa verið sendan úr landi með ofbeldisfullum föður sínum. „Hann er sendur úr landi með honum með leyfi nefndarinnar. Þeir beinlínis lugu að Útlendingastofnun að þeir væru búnir að hafa samband við móður hans og yfirvöld í Kólumbíu um að taka á móti þeim feðgum þegar þeir kæmu út,“ segir Svavar.
Nefndin hafi hins vegar ekki náð sambandi við nein yfirvöld í Kólumbíu auk þess sem enginn hefði náð í móður Oscars í um tvö ár enda kom á daginn að það tók enginn á móti þeim feðgum við lendingu í höfuðborginni Bogotá.
Hvert verður næsta skref ykkar í málinu?
„Við erum bara hálflömuð og öll fjölskyldan í kvíða yfir að hann verði bara tekinn eftir páska,“ svarar Svavar hreinskilnislega og bætir því við að fjölskyldunni verði fátt til varnar komi lögregla á vettvang og handtaki drenginn. „Við vitum ekki einu sinni hvar hann endar eða hver tekur á móti honum,“ segir Svavar og bendir á að þessari brottvísun fylgi tveggja ára bann við endurkomu til Schengen-svæðisins.
Barnavernd Suðurnesja sjái nú um mál Oscars og þangað hafi hann farið í viðtal. Starfsfólk þar hefur að sögn Svavars komið einstaklega vel fram við Oscar sem beri því söguna vel. Öðru gegni um barnavernd Hafnarfjarðar sem sá um mál Oscars áður en hann var sendur úr landi í október.
„Barnavernd Hafnarfjarðar var óhæf til að höndla hans mál við komu hans til landsins núna vegna þess að kvartað hafði verið yfir henni vegna meðhöndlunar máls Oscars í fyrra skiptið,“ segir hann og bendir enn fremur á að eftirlitsstofnun óski nú svara við því hvernig það hafi mátt gerast að þá sextán ára gamalt barn hafi verið sent úr landi.
„Barnavernd Hafnarfjarðar gerði ekki neitt til að vernda hann í fyrra skiptið. Þeirra hlutverk var greinlega bara að halda honum uppteknum þar til hægt var að ná í hann og senda hann úr landi. Hvernig þetta var meðhöndlað var allt hið einkennilegasta mál og barnavernd Hafnarfjarðar brást algerlega hlutverki sínu og er þess vegna til rannsóknar hjá eftirlitsstofnun,“ segir Svavar Jóhannsson að lokum og sendir boltann yfir til Sonju eiginkonu sinnar.
Sonja ýtir úr vör með því að benda á skýrslutöku sem Oscar, eins og aðrir umsækjendur um vernd, þurfti að gangast undir hjá Útlendingastofnun í febrúar. Var honum þar ætlað að opna sig um ofbeldið sem hann hafði sætt við komuna til Kólumbíu.
Segir Sonja að hlutleysis þeirra er um málið fjölluðu hafi engan veginn verið gætt og enginn sálfræðingur hafi verið viðstaddur viðtalið. „Af því að hann, með sína flóknu áfallasögu, var ekki tilbúinn að tala um það strax í fyrsta viðtali í hverju hann hafði lent er bara sagt að ekkert sé breytt í umsókninni hans annað en að hann sé fylgdarlaust barn,“ segir Sonja.
„Okkur finnst það mjög einkennilegt að ekki sé kallaður til einhver óháður aðili til að taka þessa skýrslu af honum, en það var sami aðili sem tók viðtalið og síðan kvað upp úrskurð sinn yfir honum. Það finnast okkur býsna skrýtin vinnubrögð, ekki ósvipað og að lögreglumaður tæki skýrslu af grunuðum brotamanni og dæmdi svo líka í hans máli. Við erum að tala um barn,“ segir Sonja.
„Hann mætir þarna og þar eru fimm konur sem hann þekkir ekki neitt og hann sextán ára drengurinn á að fara að opna sig og segja frá öllu ofbeldinu sem hann hafði lent í. Þarna á meðal er kona sem vinnur fyrir Útlendingastofnun sem er áður búin að hafna honum. Af hverju ætti hann þá að segja þessari konu frá því sem hann lenti í?“ spyr Sonja, „hún er að vinna hjá stofnun sem er búin að hafna honum og senda hann úr landi áður.“
Nefnir Sonja að Oscari hafi verið neitað um að tala við sinn talsmann. „Við erum með þetta skriflegt,“ segir hún, en tveir lögfræðingar vinna nú að málum fjölskyldunnar. Tíminn er hins vegar af mjög skornum skammti.
„Við vorum alveg vongóð um að hann fengi að minnsta kosti umfjöllun um umsóknina sína, en vegna þess að lögunum var breytt á þann veg að komi fram endurtekin umsókn megi sjálfkrafa vísa henni frá var það gert, en við getum engan veginn séð hvernig hægt var að komast að þeirri niðurstöðu um fylgdarlaust barn á flótta,“ segir Sonja enn fremur.
Hún segir Útlendingastofnun hafa spurt barnavernd Hafnarfjarðar á sínum tíma hvort óhætt væri að senda Oscar úr landi. „En það er eins og nefndin reyni bara að eyða því tali, henni hafi ekki þótt ástæða til að aðhafast í málinu þó að strákurinn segði frá og pabbi hans viðurkenndi að hafa beitt hann ofbeldi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Við mig var sagt að búið væri að hafa samband við yfirvöld í Kólumbíu og að hann yrði öruggur. Það var lygi,“ segir Sonja ómyrk í máli.
Hún gagnrýnir harðlega að þeirri hugmynd hafi verið velt upp af barnavernd Hafnarfjarðar að senda Oscar á vistheimili hér á landi síðasta haust vegna þess að ekki hefði þótt öruggt að hann væri með pabba sínum.
„Það var svo aldrei gert, en það var síðan metið óhætt að senda hann með ofbeldismanninum pabba sínum út og ekki búið að hafa samband við einn og neinn,“ segir Sonja og bíður fjölskyldan í Hafnarfirði nú þess sem verða vill eftir páska þegar löglegum dvalartíma hins sautján ára gamla Oscars Andres Florez Bocanegra lýkur.
Hún segir fyrrverandi ríkisstjórn hafa bundið þannig um hnútana með nýjum lögum að nánast ómögulegt væri að að fá vernd á Íslandi lengur. „Ný ríkisstjórn, sem kennir sig við velferð, notar svo þá afsökun að hún hafi ekki komið að þessum lögum og sé því máttlaus gagnvart því að stíga inn til þess að vernda börn þegar kerfið hefur brugðist. Við neitum að trúa öðru en að Þorbjörg Sigríður dómsmálaráðherra og Guðmundur Ingi barnamálaráðherra stígi hér inn og verndi þennan dreng þó að það væri ekki nema tímabundið,“ segir Sonja.
Kveður hún það einfalt mál að veita drengnum tímabundna vernd vegna mannúðarsjónarmiða. „Það er enginn að biðja um að hann verði gerður að íslenskum ríkisborgara á morgun. Aðeins að sýnd sé manngæska og umhyggja fyrir barni sem þarf á því að halda. Síðasta ríkisstjórn sprakk í loft upp að miklu leyti vegna álíka mála og við vonum innilega að þessi nýja stjórn ætli sér að gera betur – ekki halda sömu stefnu og láta það verða eitt sitt fyrsta verk að vísa sautján ára dreng út í opinn dauðann. Við erum að bíða eftir að heyra frá Guðmundi Inga og Þorbjörgu Sigríði og vonum af öllu hjarta að þau sjái að þau vilji hjálpa okkur að vernda hann Oscar okkar,“ segir Sonja Magnúsdóttir að lokum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.