Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, segir vont og í raun óboðlegt og óskiljanlegt að Halla Tómasdóttir forseti Íslands hafi vísað til Frans páfa með enskri gerð af nafni hans og embættisheiti.
mbl.is og fleiri fjölmiðlar fjölluðu um færslu forsetans í dag, en í upphaflegri færslu minntist Halla hans sem „Pope Francis“. Síðar breytti hún færslu sinni og vísaði til hans sem Frans páfa.
Eiríkur gagnrýnir kveðju Höllu í færslu í Málspjallinu, hóp á Facebook. Þar skrifar hann:
„Það var vont og í raun alveg óboðlegt og óskiljanlegt að í opinberri færslu forseta Íslands skyldi vísa til Frans páfa með enskri gerð af nafni hans og embættisheiti. Sem betur fer var þessu breytt fljótlega en þetta sýnir að enskan laumar sér víða inn og nauðsynlegt er að vera alltaf á verði gagnvart óþarfri og ástæðulausri enskunotkun.“