Stofnandi Kvikmyndaskóla Íslands segir aðgerðaleysi stjórnvalda hafa orðið skólanum að falli. Hann þakkar Rafmennt fyrir að taka yfir kennslu skólans en segir þó ljóst að framtíð skólans muni breytast.
Þetta skrifar Böðvar Bjarki Pétursson, stofnandi skólans, í pistli á Klapptré.is.
Hefst pistill Böðvars á þeirri spurningu hvers vegna skólinn, sem hafi verið starfandi frá 1992 og verið með kennitölu frá 2003, sé allt í einu gjaldþrota þegar gæði skólahaldsins sem og eftirspurn eftir náminu hafi sjaldan verið meiri.
Þá nefnir Böðvar þrjár meginástæður fyrir gjaldþroti skólans:
„a. Í 28 mánuði hefur skólinn ekki fengið afgreidda viðurkenningu á starfsemina, hvorki frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, né mennta- og barnamálaráðuneyti, þrátt fyrir linnulausar beiðnir stjórnenda og stjórnar skólans um afgreiðslu.
b. Við stofnun kvikmyndadeildar við Listaháskóla Íslands árið 2021 féll niður námslánaréttur við Kvikmyndaskóla Íslands. Undanþága féll niður 1. apríl fyrir ári síðan. Það leiddi af sér fjöldabrottfall úr skólanum á haustmisseri 2024 og vormisseri 2025. Nemendum hefur fækkað um 50% með tilheyrandi tekjutapi skólans.
c. Ekki hefur tekist að ná samningum við mennta- og barnamálaráðuneytið um útgreiðslu fjármuna til skólans á árinu 2025, þrátt fyrir að skólanum sé eyrnamerkt fé á fjárlögum. Engar greiðslur hafa því borist til skólans á þessu ári og afleiðingin er gjaldþrot,“ skrifar Böðvar.
Segir hann það hafa verið sameiginlega niðurstöðu ráðherra og ráðuneyta að Kvikmyndaskóla Íslands hafi verið gert ókleift að starfa með því að viðurkenna ekki skólann, taka námslánarétt af nemendum og greiða ekki til skólans af fjárlögum. Það hafi verið gert án formlegrar og efnislegrar afgreiðslu umsókna og erinda Kvikmyndaskólans af hálfu ráðuneytanna.
„Ástæður gjaldþrotsins eru því að öllu leyti afleiðingar af aðgerðum eða aðgerðarleysi ráðuneyta í að veita skólanum þjónustu sem ríkið hefur einkarétt á að veita, sem er viðurkenning náms innan skólakerfisins.“
Þá segir hann engar formlegar skýringar hafa komið fram um hvers vegna stjórnvöld hafi komið fram við skólann með slíkum hætti og nefnir Böðvar jafnframt að eina skýringin virðist vera sú að stjórnvöld séu á móti uppbyggingu háskólastarfsemi utan núverandi háskóla.
„Eftir að Kvikmyndaskólinn hafði staðist háskólaúttekt með glæsibrag, þótt sett væru ýmis skilyrði sem öll voru frekar auðleyst, þá breytti ráðuneytið niðurstöðum úttektar með fremur óskammfeilnum hætti og hafnaði því að afgreiða viðurkenningu skólans. Alveg sama þótt sent væri lögfræðiálit og málinu fylgt eftir mánuðum saman. Skólanum var lokað með þögn og aðgerðarleysi. Þetta á bæði við um núverandi ráðherra háskólamála, Loga Einarsson, og fyrrverandi ráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur,“ skrifar Böðvar.
Hann segir fulla ástæðu til að þakka Rafmennt, sem sinnir fræðslu fyrir raf- og tækniiðnaðinn á Íslandi, fyrir þau inngrip að borga starfsmönnum laun og gera nemendum kleift að ljúka námi sínu. Hins vegar sé ljóst að starfsemi skólans muni taka töluverðum breytingum.
„Hvað framtíðina varðar þá er greinilegt að skólanum er ætlað að verða einhvers konar iðnnám sem á að útskrifa tæknifólk sem þjónustar listamennina sem útskrifast frá Listaháskóla Íslands.“
„Stjórnvöldum er að takast að loka Kvikmyndaskóla Íslands í þeirri mynd sem hann hefur verið síðustu áratugi. Samhliða er eigendum hans refsað rækilega. Til einkaaðila og frumkvöðla á sviði skólamála eru skilaboðin skýr.“
Böðvar nefnir þó að alþjóðlegi hluti námsins, innan Icelandic Film School, sem stofnaður var árið 2004, lifi enn og fylgi sömu kennsluskrá og skipulagi og Kvikmyndaskólinn. Þar verði haldið áfram að sinna listkennslu í kvikmyndagerð á háskólastigi.