Niðurskurður í starfsmannahaldi fylgir kaupum Rafmenntar á Kvikmyndaskóla Íslands. Rafmennt fundaði í dag með nemendum og starfsfólki skólans.
Að sögn Þórs Pálssonar, skólameistara Rafmenntar, ríkir þó bjartsýni og jákvæðni meðal kennara og nemenda um framtíð námsins.
Greint var frá því í síðustu viku að Rafmennt tæki yfir rekstur Kvikmyndaskólans, eftir að skólinn fór í gjaldþrotameðferð í lok mars.
„Fundirnir gengu mjög vel. Það eru allir bjartsýnir og jákvæðir gagnvart verkefninu fram undan,“ segir Þór í samtali við mbl.is.
Hann bætir við að nemendur séu eðlilega ánægðir með að fá tækifæri til að ljúka önninni samkvæmt upphaflegri áætlun.
Þór segir jafnframt að öllum hafi verið gerð grein fyrir því að stefnt sé að því að halda áfram á þeirri braut sem skólinn hefur verið á. Þó þurfi að ráðast í niðurskurð, einkum meðal fastráðinna starfsmanna. Áhersla sé þó lögð á að þjónusta við nemendur skerðist ekki.
Segir hann fastráðna starfsmenn hafa fengið leiðbeiningar frá Rafiðnaðarsambandinu um hvernig sé hægt að sækja rétt sinn gagnvart bæði þrotabúi skólans sem og Ábyrgðasjóði launa.
Þá tekur hann fram að verktakar sem annist kennslu muni halda áfram störfum, líkt og með þá kennslu sem þegar hefur verið skipulögð.
„Þetta bitnar kannski harðast á fastráðnu starfsfólki af því að við erum náttúrulega með námsráðgjafa, skrifstofu, skrifstofustjóra og bókhald. Það er allt fyrir hendi hjá okkur og okkur vantar það ekki.“
Segir Páll þó framtíðina vera bjarta fyrir námið og þá muni eflaust vanta starfsfólk til að starfa áfram í haust.
Þannig að það liggur fyrir að þið mynduð vilja halda náminu gangandi eftir sumar?
„Það liggur alveg fyrir og hefur alltaf legið fyrir. Við erum alveg tilbúin að ræða það við þau yfirvöld sem vilja við okkur ræða, um framhald á kvikmyndanámi á Íslandi.“
Unnið er nú að því að útbúa aðstöðu fyrir rúmlega 50 nemendur skólans í húsnæði Rafmenntar hjá Stúdíó Sýrlandi í Vatnagörðum þar sem settar verða upp tölvur, stólar og borð.
Veldur það því að kennslu seinkar um tæpa viku og mun hún hefjast næsta mánudag.
„Það eru allir upplýstir um að það er viku seinkun á öllu. Bæði verkefnaskilum sem hafa verið dagsett, lokaskilum og útskrift. En annað á bara að halda sjó.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.