Landris í Svartsengi heldur áfram, en töluvert hefur dregið úr hraða þess og er það nú svipað og fyrir eldgosið sem hófst 1. apríl.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að á meðan kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi þurfi að reikna með endurteknum kvikuhlaupum og jafnvel eldgosum á Sundhnúkagígaröðinni.
Smáskjálftavirkni mælist áfram við kvikuganginn sem myndaðist 1. apríl og mældust að meðaltali um hundrað jarðskjálftar á dag í síðustu viku. Þá mældist einnig nokkur smáskjálftavirkni við Fagradalsfjall síðastliðna helgi.
Veðurstofan hefur uppfært hættumatskortið og gildir það til 6. maí að öllu óbreyttu.