„Málið er enn í fullri rannsókn. Það er mikil vinna í gangi varðandi skýrslutökur og aðra gagnaöflun og við vinnum að því koma þessu öllu heim og saman og fá skýrari mynd á atburðarásina.“
Þetta segir Eiríkur Valberg, fulltrúi í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is spurður út í rannsókn lögreglunnar í máli á manns sem lést eftir atvik á heimili sínu við Súlunes í Garðabæ þann 11. þessa mánaðar.
Maðurinn lá meðvitundarlaus og þungt haldinn þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn og var úrskurðaður látinn eftir að komið var með hann á sjúkrahús.
Gæsluvarðhald yfir konu á þrítugsaldri, sem var handtekinn í tengslum við rannsókn á andláti föður hennar, var framlengt í síðustu viku til 7. maí en konan er með réttarstöðu sakbornings í málinu. Að sögn Eiríks er hún ein grunuð um aðkomu að andlátinu.
Maðurinn sem lést hét Hans Roland Löf. Hann var fæddur árið 1945. Hann var búsettur í Súlunesi á Arnarnesi ásamt eiginkonu sinni og dóttur þeirra, Margréti Höllu Hansdóttur Löf, sem situr í gæsluvarðhaldi.
Samkvæmt heimildum mbl.is var eiginkona mannsins einnig flutt á sjúkrahús til aðhlynningar en Eiríkur vill ekki tjá sig um það á þessu stigi né um dánarorsök mannsins. Hann segir að málið sé á viðkvæmum tímapunkti í rannsókninni.