Persónuvernd greinir frá því að í lok maí 2025 muni Meta hefja þjálfun gervigreindar með því að nýta færslur, myndir og athugasemdir frá notendum Facebook og Instagram í Evrópu.
Tekið er fram að þetta nái til alls efnis sem hafi verið gert opinbert á þessum miðlum, bæði nýs efnis og þess sem þegar hefur verið birt.
„Notendur sem vilja koma í veg fyrir að þeirra gögn séu notuð þurfa að bregðast við sem allra fyrst,“ segir í tilkynningu frá Persónuvernd.
Þá segir að það hafi verið áætlað að hefja þjálfunina árið 2024, en þeirri ákvörðun hafi verið frestað eftir að írska persónuverndarstofnunin (IDPC), sem hafi eftirlit með Meta í Evrópu, hafi gert athugasemdir við lagagrundvöll og skort á gagnsæi. Persónuvernd segir að nú hafi Meta innleitt einfaldara ferli sem geri notendum kleift að andmæla því að gögn þeirra séu notuð.
„Allir evrópskir notendur Facebook og Instagram sem náð hafa 18 ára aldri fá tilkynningu um þessa breytingu frá Meta og upplýsingar um hvernig hægt er að andmæla vinnslunni. Ef engin andmæli berast, telst vinnslan samþykkt. Þeir sem vilja koma í veg fyrir að gögn þeirra séu notuð í þjálfun gervigreindar verða að andmæla formlega fyrir lok maí 2025. Að öðrum kosti gæti efnið þeirra þegar verið orðið hluti af þjálfunargögnum sem ekki er hægt að fjarlægja aftur,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að það megi andmæla vinnslunni með einföldum hætti í gegnum eftirfarandi tengla hér fyrir Facebook og hér fyrir Instagram.