Ríkisstjórnin situr nú fund í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum sem mun standa yfir fram á seinni part dags.
Ólafur Kjaran Árnason, aðstoðarmaður Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Hann segir að um „vinnufund“ sé að ræða. Ekki fengust hins vegar upplýsingar um hvaða mál yrðu á dagskrá.
Ríkisstjórnin hafi byrjað daginn á ríkisstjórnarfundi í morgun, þar sem einu málin á dagskrá sneru að annars vegar Alþjóðaframfarastofnun og hins vegar að skoðanakönnun um utanríkismál.
Ólafur segir að vinnufundurinn muni að öllum líkindum standa yfir fram á seinni part dags.
Einn ráðherra sé fjarverandi vegna veikinda. Tveir aðrir séu erlendis: Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra.
Seinast hélt stjórnin vinnufund á Þingvöllum þann 3. janúar, en þá var stjórnin nýmynduð.