Utanríkisráðherra Íslands telur „óeðlilegt“ að Ísrael taki þátt í Eurovision í ár með tilliti til framgöngu Ísraelshers á Gasa. Hún segist búin að tjá menningarráðherra sína „persónulegu skoðun“. Hún vill samt ekki að Ísland sniðgangi keppnina þó Ísrael taki þátt.
„Alveg eins og Rússum hefur ekki verið hleypt áfram á þessu sviði, þá finnst mér ekki óeðlilegt eftir það sem undan er gengið við botn Miðjarðarhafs, á Gasasvæðinu, að þessar spurningar komi upp þegar ítrekað er verið að brjóta á alþjóðalögum, brjóta á rétti almennra borgara til hjálparaðstoðar,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.
Ísrael tekur þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, sem haldin verður í Basel í Sviss í maí. Þátttaka Ísraela hefur verið harðlega umdeild, meðal annars hér á landi, vegna stríðsins á Gasaströndinni.
„Ég undirstrika að þetta er mín persónulega skoðun sem almennur borgari en það er evrópskra sjónvarpsstöðva að taka ákvörðun um og þar eiga meðal annars Ríkissjónvarp og -útvarp hlut að máli.“
Þegar hafa tæplega fimm þúsund manns skrifað undir ákall til RÚV um að Ísland dragi sig úr söngvakeppninni í ár fái Ísrael að taka þátt. Þorgerður vill aftur á móti ekki að Íslendingar sniðgangi keppnina.
„Þetta er bara mín skoðun og [Logi Einarsson] menningarráðherra veit af henni,“ segir Þorgerður, spurð hvort ríkisstjórnin ætli að beita sér eitthvað vegna þátttöku Ísraels. Hún bætir við:
„En það er til dæmis líka mín skoðun að ef Ísraelar taka þátt, þá taka Íslendingar líka þátt.“
Hún bendir á að ríkisútvarp Spánverja hafi gert athugasemd við þátttöku Eurovision. Ríkissútvarp Spánar sendi samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) erindi þar sem farið var fram á „umræðu um þátttöku ísraelska ríkissjónvarpsins“ í keppninni.