Fyrirtækið Intuens Ómskoðun hefur starfrækt segulómtæki hér á landi frá árinu 2023. Frá þeim tíma hefur mikill fjöldi fólks leitað til fyrirtækisins og fengið svokallaða heilskoðun.
Guðbjartur Ólafsson heimilislæknir starfar hjá fyrirtækinu og hann segir að greiningar fyrirtækisins hafi skipt sköpum við greiningu og meðferð sjúkdóma sem annars hefðu ekki uppgötvast fyrr en miklu seinna.
„Það eru fjölmörg dæmi þar sem við höfum greint alvarlega sjúkdóma. Við höfum fundið til að mynda æxli í líffærum á borð við heila sem hefur þurft nauðsynlega inngrip við eða illkynja æxli í öðrum líffærakerfum,“ segir Guðbjartur.
Sem fólk hefur ekki verið meðvitað um?
Já, sem eru þá einkennalaus. Það má kannski líta á það þannig með krabbamein, svo við tökum ristilkrabbamein sem dæmi. Ef einstaklingur greinist með ristilkrabbamein þegar það er bara staðbundið í ristli, ekkert komið út fyrir ristil, þá eru lífslíkurnar um 95% eftir fimm ár. En ef þú tekur einhvern sem fékk ristilkrabbamein og hann greinist með meinvörp í tveimur líffærakerfum fyrir utan ristil þá eru lífslíkurnar eitthvað í kringum 5-10% eftir fimm ár sem eru lifandi,“ segir Guðbjartur.
Hann er gestur Spursmála, ásamt Steinunni Erlu Thorlacius, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.
Þar fara þau meðal annars yfir það hvernig Sjúkratryggingar Íslands og landlæknir hafa reynt að leggja stein í götu fyrirtækisins og hreinlega reynt að knésetja fyrirtækið.
Þannig hefur fyrirtækinu verið gert ókleift að taka þátt í útboðum Sjúkratrygginga á myndgreiningarþjónustu þar sem ríkissjóður tekur þátt í kostnaði og á grundvelli beiðna frá læknum.
Hins vegar hefur fyrirtækið haft í nógu að snúast í heilskoðunum þar sem fólk kaupir fullu verði heildargreiningu á líkama sínum á grundvelli þess sem ómskoðunarbúnaðurinn getur greint. Kostar sú meðferð 300.000 kr.
Viðtalið við þau má sjá í heild sinni hér: