Tvær táningsstúlkur sem handteknar voru á Keflavíkurflugvelli í lok síðasta mánaðar fyrir stórfelldan fíkniefnaflutning sitja enn í gæsluvarðhaldi en það rennur út 5. maí næstkomandi. Alls eru 20 manns í haldi á Suðurnesjum.
Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is en stúlkurnar voru handteknar við komuna til landsins frá Þýskalandi þann 30. mars fyrir innflutning á 20 þúsund fölsuðum Oxycontin-töflum.
Úlfar segir að rannsókn málsins standi á fullu yfir en um svokölluð burðardýr er að ræða. Önnur stúlkan er sautján ára að verða átján, og því undir lögaldri, en hin verður tvítug á þessu ári. Báðar eru þær með evrópskt ríkisfang.
Hann segir að í dag séu 20 manns í gæsluvarðhaldi hjá lögreglunni á Suðurnesjum og er stór hluti þeirra í haldi vegna innflutnings á fíkniefnum í gegnum Keflavíkurflugvöll.