Guðbjörn Emil Guðmundsson fv. hótelstjóri lést á Hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 11. apríl síðastliðinn, 91 árs að aldri.
Emil fæddist á Akranesi 31. júlí 1933 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Guðmundur Veturliði Bjarnason og Guðríður Gunnlaugsdóttir. Emil átti einn eldri bróður, Harald Ársæl, sem lést 2005.
Emil starfaði lengst af sem hótelstjóri Hótels Loftleiða, eftir að hafa verið stöðvarstjóri hjá Loftleiðum. Eftir árin á hótelinu var hann svæðisstjóri Flugleiða hér á landi og erlendis um árabil. Er hann einn fulltrúa þeirrar kynslóðar sem lagði grunninn að alþjóðlegri flugstarfsemi hér á landi. Á efri árum skipulagði Emil ferðir til Færeyja, Grænlands og Danmerkur og tók að sér fararstjórn í mörgum þeirra.
Emil var jafnframt virkur í félagsstörfum. Hann sat í stjórn Sögufélags Loftleiða og var iðinn við að rækta tengsl fyrrverandi starfsmanna Loftleiða með reglulegum samfundum. Hann var einn af stofnendum Hins íslenska skötufélags, stofnað 1971, ásamt Sigurði Magnússyni, sem einnig var þekkt sem Skötuklúbbur Emils. Félagið stendur fyrir skötuveislu á hverju ári, ýmist á Akranesi eða í Hafnarfirði.
Eiginkona Emils var Sigurbjört Bíbí Gústafsdóttir, f. 1935, d. 2019. Synir þeirra eru Kjartan Þór, fyrrverandi fluggagnafræðingur Isavia, f. 1955, kvæntur Maríu Priscillu Zanoriu, og Ragnar, deildarstjóri eftirlitsdeildar Orkubús Vestfjarða, f. 1962, kvæntur Sóleyju Chyrish Villaespin. Barnabörnin eru fimm talsins og barnabarnabörnin sjö.
Útför Emils fer fram í kyrrþey í Fossvogskirkju mánudaginn 28. apríl næstkomandi.