Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gerði stöðu íslensku viðskiptabankanna að umræðuefni í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans fyrr í þessum mánuði.
Hann nefndi að opinber umræða væri á þá leið að íslenskir bankar byggju við of miklar eiginfjárkvaðir og væru því ósamkeppnishæfir. Leiðir til úrbóta væru annaðhvort sameiningar banka eða aflétting kvaða.
„Þarna átti ég við að kannski væri ekki ástæða til að kvarta. Arðsemi bankanna hefur tvöfaldast á síðustu fjórum árum. Þeir hafa náð að auka tekjur verulega og minnka kostnað á sama tíma. Þeir líta alls ekki illa út í erlendum samanburði,“ segir Ásgeir í samtali við ViðskiptaMoggann.
Hann segir að séu bankarnir bornir saman við svipað stóra banka annars staðar á Norðurlöndum sé munurinn ekki svo mikill. „Það sem munar um er að hér á landi eru bankarnir þrír kerfislega mikilvægir og bera eiginfjárkvaðir í samræmi við það. Bankar af sambærilegri stærð á Norðurlöndum eru ekki kerfislega mikilvægir og bera því eðlilega lægri eiginfjárkvaðir. Ég fagna umbótavilja frá bönkunum, en aukin arðsemi getur ekki verið fengin með því að veikja þá þjóðhagsvarúð sem er til staðar. Það kemur þeim sjálfum í koll. Sígandi lukka er best.“
Hann telur ekki ólíklegt að sameiningar haldi áfram á fjármálamarkaði en segir að þrír sé galdratala í hagfræði. „Ef bankarnir eru færri en þrír þá er ekki markaður.“
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.