Konan, sem grunuð er um aðild að andláti föður síns á Arnarnesi fyrr í mánuðinum, var úrskurðuð í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna en ekki almannahagsmuna, líkt og áður kom fram í fréttinni en lögreglan veitti mbl.is rangar upplýsingar fyrir mistök.
Rúv sagði frá því í dag að konan neiti sök í málinu en það hefur ekki fengist staðfest hjá lögreglunni. Ekki sé hægt að veita upplýsingar um það sem konan segir.
Ekkert nýtt sé að frétta af málinu en skýrslutökur standi yfir sem og önnur gagnaöflun.
Heimild til gæsluvarðhalds á grundvelli rannsóknarhagsmuna er að finna í a-lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála.
A-liðurinn kveður á um það að úrskurða megi sakborning í gæsluvarðhald ef ætla megi að hann muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni.
Þá er gæsluvarðhaldsúrskurður alltaf bundinn þeim skilyrðum að fram sé kominn rökstuddur grunur um að sakborningur hafi gerst sekur um háttsemi sem varðar fangelsisrefsingu.
Fréttin hefur verið uppfærð.