Hlín Jóhannesdóttir, sem lætur nú af störfum sem rektor Kvikmyndaskóla Íslands, segist ánægð með hvernig málin hafa þróast eftir kaup Rafmenntar á starfsemi skólans.
Þrátt fyrir að vera ekki áfram í stjórnunarstöðu langar hana áfram að vera „við borðið“. Hún segist þó gera sér grein fyrir að hagræðingar Rafmenntar gætu haft áhrif á störf hennar fyrir skólann en hún sé vongóð um að fá að koma að borðinu um framtíðarviðræður Kvikmyndaskólans um nám á háskólastigi.
Rafmennt fundaði í dag með nemendum og starfsfólki Kvikmyndaskólans.
Þór Pálsson, skólameistari Rafmenntar, sagði í samtali við mbl.is að bjartsýni og jákvæðni hefðu einkennt andrúmsloftið eftir fundina. Hlín tekur undir það og segir fundina hafa gengið vel.
Að sögn hennar vöktu Þór og Jakob Tryggvason, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, sem Rafmennt heyrir undir, traust meðal þeirra sem tengjast skólanum. Hlín segir að hún hafi fulla trú á framhaldinu.
Þór greindi frá því í dag að kaupunum fylgdi niðurskurður í starfsmannahaldi, einkum hjá fastráðnu starfsfólki. Hlín segir það vissulega óhjákvæmilegt.
„Maður skilur vel að það þurfi að hagræða og spara kostnað.“
Spurð hvernig breytingarnar muni hafa áhrif á hennar stöðu svarar Hlín:
„Það er bara frábær spurning. Ég hef líka alveg spurt sjálfa mig að þessu á sama tíma og ég er í samtölum um það að vera við borðið.“
Hlín hefur starfað við skólann um árabil og þekkir bæði nemendur, kennara og námsefni vel. Hún tók við sem rektor í september 2023 en þar áður gegndi hún m.a. hlutverki yfirmanns fagsviðs og starfsmannastjóra.
„En ég geri mér alveg grein fyrir því að það er verið að hagræða, þannig við skulum bara sjá hvernig þetta þróast. Ég er allavega ekki í neinni stjórnunarstöðu lengur.“
Hlín segir næstu daga fara í undirbúning kennslunnar, sem hefst næstkomandi mánudag í aðstöðu Rafmenntar. Markmiðið sé að klára önnina með sóma.
„En svo er ég auðvitað vongóð um það að fá að einhverju leyti að koma að borðinu og vera þátttakandi í framtíðarviðræðum við háskóla og svoleiðis. Það bara kemur í ljós hvernig það þróast allt saman.“
Það sem mestu máli skiptir, að hennar mati, er að nám í kvikmyndagerð, á því gæðastigi sem Kvikmyndaskólinn hefur staðið fyrir, haldi áfram. Hún telur að þörf sé á slíku námi.
„Við verðum að átta okkur á því að hagnýtar greinar eru að verða verðmætari og verðmætari. Við þurfum á svona heildsteyptu námi í kvikmyndagerð að halda.“
Spurð um áðurnefndar framtíðarviðræður við háskólastofnanir segir Hlín að samtöl hafi átt sér stað milli Kvikmyndaskólans og Háskólans á Bifröst.
Að hennar sögn hafi Bifröst verið einna opnust fyrir samtali um hugsanlega sameiningu. Hún vonast til að þau samtöl geti haldið áfram.