Kveður rektorsstólinn í sátt

„Við verðum að átta okkur á því að hagnýtar greinar …
„Við verðum að átta okkur á því að hagnýtar greinar eru að verða verðmætari og verðmætari. Við þurfum á svona heildsteyptu námi í kvikmyndagerð að halda,“ segir Hlín. Samsett mynd

Hlín Jó­hann­es­dótt­ir, sem læt­ur nú af störf­um sem rektor Kvik­mynda­skóla Íslands, seg­ist ánægð með hvernig mál­in hafa þró­ast eft­ir kaup Raf­mennt­ar á starf­semi skól­ans.

Þrátt fyr­ir að vera ekki áfram í stjórn­un­ar­stöðu lang­ar hana áfram að vera „við borðið“. Hún seg­ist þó gera sér grein fyr­ir að hagræðing­ar Raf­mennt­ar gætu haft áhrif á störf henn­ar fyr­ir skól­ann en hún sé vongóð um að fá að koma að borðinu um framtíðarviðræður Kvik­mynda­skól­ans um nám á há­skóla­stigi.

Raf­mennt fundaði í dag með nem­end­um og starfs­fólki Kvik­mynda­skól­ans.

Þór Páls­son, skóla­meist­ari Raf­mennt­ar, sagði í sam­tali við mbl.is að bjart­sýni og já­kvæðni hefðu ein­kennt and­rúms­loftið eft­ir fund­ina. Hlín tek­ur und­ir það og seg­ir fund­ina hafa gengið vel.

Skil­ur vel að það þurfi að hagræða

Að sögn henn­ar vöktu Þór og Jakob Tryggva­son, formaður Rafiðnaðarsam­bands Íslands, sem Raf­mennt heyr­ir und­ir, traust meðal þeirra sem tengj­ast skól­an­um. Hlín seg­ir að hún hafi fulla trú á fram­hald­inu.

Þór greindi frá því í dag að kaup­un­um fylgdi niður­skurður í starfs­manna­haldi, einkum hjá fa­stráðnu starfs­fólki. Hlín seg­ir það vissu­lega óhjá­kvæmi­legt.

„Maður skil­ur vel að það þurfi að hagræða og spara kostnað.“

Spurð hvernig breyt­ing­arn­ar muni hafa áhrif á henn­ar stöðu svar­ar Hlín:

„Það er bara frá­bær spurn­ing. Ég hef líka al­veg spurt sjálfa mig að þessu á sama tíma og ég er í sam­töl­um um það að vera við borðið.“

Ekki leng­ur í stjórn­un­ar­stöðu

Hlín hef­ur starfað við skól­ann um ára­bil og þekk­ir bæði nem­end­ur, kenn­ara og náms­efni vel. Hún tók við sem rektor í sept­em­ber 2023 en þar áður gegndi hún m.a. hlut­verki yf­ir­manns fagsviðs og starfs­manna­stjóra.

„En ég geri mér al­veg grein fyr­ir því að það er verið að hagræða, þannig við skul­um bara sjá hvernig þetta þró­ast. Ég er alla­vega ekki í neinni stjórn­un­ar­stöðu leng­ur.“

Mik­il­væg­ast að námið haldi áfram í sömu gæðum

Hlín seg­ir næstu daga fara í und­ir­bún­ing kennsl­unn­ar, sem hefst næst­kom­andi mánu­dag í aðstöðu Raf­mennt­ar. Mark­miðið sé að klára önn­ina með sóma.

„En svo er ég auðvitað vongóð um það að fá að ein­hverju leyti að koma að borðinu og vera þátt­tak­andi í framtíðarviðræðum við há­skóla og svo­leiðis. Það bara kem­ur í ljós hvernig það þró­ast allt sam­an.“

Það sem mestu máli skipt­ir, að henn­ar mati, er að nám í kvik­mynda­gerð, á því gæðastigi sem Kvik­mynda­skól­inn hef­ur staðið fyr­ir, haldi áfram. Hún tel­ur að þörf sé á slíku námi.

„Við verðum að átta okk­ur á því að hag­nýt­ar grein­ar eru að verða verðmæt­ari og verðmæt­ari. Við þurf­um á svona heild­steyptu námi í kvik­mynda­gerð að halda.“

Hafa átt sam­töl við Bif­röst

Spurð um áður­nefnd­ar framtíðarviðræður við há­skóla­stofn­an­ir seg­ir Hlín að sam­töl hafi átt sér stað milli Kvik­mynda­skól­ans og Há­skól­ans á Bif­röst.

Að henn­ar sögn hafi Bif­röst verið einna opn­ust fyr­ir sam­tali um hugs­an­lega sam­ein­ingu. Hún von­ast til að þau sam­töl geti haldið áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert