Talsmenn Nemendafélags Verslunarskóla Íslands segja frumvarp Guðmundar Inga Kristinssonar mennta- og barnamálaráðherra um breytingu á lögum framhaldsskóla, brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stuðla að pólitískri mismunun nemenda.
Þetta kemur fram í innsendri umsögn nemendafélagsins til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, sem fer m.a. með mál framhaldsskólanna.
Það eru þau Pétur Orri Pétursson og Eva Sóley Sigsteinsdóttir sem senda umsögnina inn fyrir hönd nemendafélagsins.
Með frumvarpi Guðmundar Inga er verið að veita framhaldsskólum skýrari heimild til að horfa til annarra þátta en einkunna við val á nemendum inn í framhaldsskóla, til að mynda upplýsinga um þátttöku og árangur í óformlegu námi, félagsstarfi og íþróttum og upplýsinga sem varpa ljósi á áhuga nemandans.
„Þá er lagt til að heimilt verði að líta til sjónarmiða sem tengjast skólasamfélaginu, þ.m.t. til að vinna gegn einsleitni í nemendahópum. Hér er t.d. átt við að við innritun sé heimilt að líta til kyns, að aðrar reglur gildi um námsárangur þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og taka tiltekinn fjölda nemenda með langvarandi stuðningsþarfir inn í skóla,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Í samtali við mbl.is segir Pétur að óttast sé hvaða áhrif lagasetningin muni hafa á námsframvindu nemenda í framhaldsskólum á Íslandi. Telur hann það sérkennilegt að í stað þess að menntakerfið vinni að því að ná sem mestum námsárangri meðal nemenda séu markmið á borð við fjölbreytni nemendahóps sett í forgrunn.
Vilja nemendurnir frekar sjá áherslur á bættan námsárangur til dæmis með upptökum samræmdra prófa.
„Maður spyr sig hvers konar skilaboð sé verið að senda. Að námsárangur sé ekki lengur sá lykilþáttur varðandi framtíðarmöguleika nemenda heldur félagsleg og líffræðileg einkenni eins og kyn. Þetta er mjög skrýtin hugsun,“ segir Pétur.
Í umsögn nemendafélagsins spyrja nemendur Verslunarskólans: „Hvað eru þið alþingismenn tilbúnir að fórna mörgum afburðarnemendum til að ná fram meiri fjölbreytileika í nemendahópi?“
Þá kalla nemendurnir eftir því að ákveðnir þættir frumvarpsins verði útskýrðir betur.
Spyr Pétur til dæmis hvað felist í þátttöku í „óformlegu námi“ og hver ætli að úrskurða um það.
„Hver ætlar til dæmis að skilgreina hvað sé óformlegt nám og hvað falli undir þar undir? Það verður að útskýra þetta betur því þetta er mjög mikilvægt og skiptir okkur miklu máli,“ segir Pétur.
Nemendurnir hafa einnig áhyggjur af breytingum er varða nemendafélög framhaldsskólanna en í frumvarpinu er lögð til breyting þar sem kveðið er á um „að nemendum beri að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks í öllu því sem skólann varðar, þar á meðal í starfi á vegum nemendafélaga framhaldsskóla.“
Pétur segir að ýmsar áhyggjur séu meðal nemenda um hvað felist í þessari breytingu. Hann segir meðal annars að óttast sé að rödd nemenda innan skólanna verði ritskoðuð af hálfu starfsmanna og að á endanum muni hún ekki fá hljómgrunn.
„Okkur finnst þetta mjög undarlegt. Nemendafélög eru gríðarlega mikilvæg til að veita ungmennum innan skólans vettvang til þess að stuðla að einhvers konar umræðu og skoðanaskiptum og ekki síst til að stuðla að lýðræðislegri þátttöku framhaldsskólanema,“ segir Pétur.
Pétur vonast til þess að allsherjar- og menntamálanefnd taki umsögnina til skoðunar og vonast eftir frekara samtali við nefndina.
„Við teljum okkur vera með rödd sem vantar í þessa umræðu og okkur finnst bara sorglegt ef allsherjar- og menntamálanefnd tekur þetta ekki til umfjöllunar. Við erum alltaf tilbúin að eiga samtal við þau og vonumst að sjálfsögðu til þess,“ segir hann.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.