Skólakerfið í borginni stendur höllum fæti og vanlíðan og ofbeldismenning meðal ungmenna er að aukast. Þetta er meðal þess sem Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir í samtali við mbl.is um boðaðan fund í Breiðholtsskóla klukkan 17.00 í dag.
„Við viljum ávarpa þetta í breiðara samhengi. Fundurinn verður haldinn í Breiðholtsskóla og auðvitað vonum við að þar komi foreldrar barna úr hverfinu og ræði svolítið stöðuna í hverfinu en við erum líka að ræða málin í stóra samhenginu, fyrir borgina alla.
Það eru allir hjartanlega velkomnir. Það verður heitt á könnunni og við vonumst til að sjá sem flesta,“ segir Hildur og ítrekar að fundinum sé ætlað að fjalla heilt yfir um stöðu barna og ungmenna í skólakerfinu.
„Við boðum til þessa fundar um stöðu barna og ungmenna í skólakerfinu vegna þess að skólakerfið okkar stendur höllum fæti, nemendur eru ekki nægilega vel undirbúnir undir lífið þegar þeir útskrifast úr námi,“ segir Hildur.
„Við erum til að mynda að sjá að læsi drengja og stúlkna er ekki nægilega gott. Við sjáum líka að vanlíðan meðal ungmenna er að aukast, mögulega vegna mikillar snjallsíma notkunar.
Svo höfum við verið að sjá ákveðna ofbeldismenningu meðal ungmenna, við þekkjum umræðuna um málefni Breiðholtsskóla og dæmi úr Breiðagerðisskóla, og þessi mál eru auðvitað að eiga sér stað víðar.“
Þrír framsögumenn verða á fundinum. Þorgrímur Þráinsson fer með erindið „Vertu ástfanginn af lífinu“. Hann hefur yfir lengri tíma ferðast um landið og talað við krakka í tíundu bekkjum grunnskóla landsins. Að sögn Hildar hefur hann skynjað aukna vanlíðan meðal ungmenna og greint frá hvað hann telur megi gera til að bæta úr því.
Sylvía Erla Melsteð fer með erindið „Að gefast ekki upp“. Hún gerði heimildamynd um lesblindu, setti af stað lestrarátak meðal grunnskólabarna og hefur þróað snjallforrit sem styður við börn og heimanám þeirra.
Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum skólastjóra Réttarholtsskóla og Melaskóla, þekkir skólaumhverfið vel að sögn Hildar og mun fara með erindið „Árangursríkur skóli“.
„Við munum hlusta á þeirra framsögur, bjóða upp á spurningar úr sal og umræður og svo ætlum við að fara í stutta vinnustofu í lokin og ræða lausnir. Við viljum heyra hvað það er sem fólk er að kalla eftir,“ segir Hildur.
Allir séu hjartanlega velkomnir á fundinn, „það verður heitt á könnunni og við vonumst til að sjá sem flesta“.
„Við höldum fundinn í Breiðholtsskóla en það þýðir ekki að við séum bara að fjalla um málefni Breiðholtsskóla.
Við munum fjalla heilt yfir um stöðu barna og ungmenna í skólakerfinu þó að fundurinn eigi sér stað í þessu hverfi.“