„Ég fór ekki út. Við tókum ákvörðun um að bara annað okkar færi. Oscar var búinn að grátbiðja okkur um að koma og bjarga sér.“
Þetta segir Sonja Magnúsdóttir, fósturmóðir Oscars Anders Florez Bocanegra um aðdragandann og ferðalagið þegar þau Svavar Jóhannsson, fósturfaðir drengsins, sóttu hann til Kólumbíu á síðasta ári.
„Í raun og veru var maðurinn minn bara samferða honum til Íslands. Strákurinn kom sér sjálfur í gegnum allt saman. Hann var í rauninni bara á eigin vegum en við vildum ekki láta hann ferðast einan þannig að maðurinn minn var bara samferða honum,“ segir Sonja.
Er hann þá gagnvart yfirvöldum í Kólumbíu, kólumbískur ríkisborgari á ferðalagi?
„Já.“
Oscar hefur fengið synjun um dvalarleyfi hér á landi en frestur hans til að fara sjálfviljugur úr landi rann út á miðnætti. Hvorki Oscar né fjölskyldan hafa heyrt neitt frá yfirvöldum og geta lítið annað en beðið í óvissu.
Hefur það að hann sé hér á eigin vegum eitthvað að gera með þá stöðu sem upp er kominn og þá ákvörðun yfirvalda hér á landi um að vísa dregnum af landi brott?
„Nei, í raun og veru þarf tvennt til þannig að endurtekin umsókn sé tekin til skoðunar. Það er að manneskjan sé á landinu og að það séu breyttar aðstæður eða ný gögn í málinu.
Hann er náttúrulega fylgdarlaus og er búinn að lenda í ofbeldi, sem hann var ekki tilbúinn að segja inni á stofnun sem var búin að hafna honum.“
Sonja segir ekkert leyndarmál að Oscar sé hér á landi til að sækja um dvalarleyfi til að vera á Íslandi.
„Hann lítur á okkur sem fjölskyldu sína. Hann á engan annan að í heiminum sem getur hugsað um hann og við viljum hugsa um hann,“ segir hún.
Þau hjónin eru að velta fyrir sér að hefja ættleiðingarferli. Sonja segir það eitthvað sem þau hafi rætt og séu sammála um að þau vilji gera.
Hún segir að Oscari líði vel hér á landi, sé í góðum vinahóp þar sem hann eigi bæði íslenska vini og vini af erlendu bergi brotnu.
„Þetta eru góðir strákar sem eru bara í fótbolta og vilja mæta í skólann, ræktina og sund. Þeir eru bara komnir heim klukkan tíu og eru bara yndislegir strákar.“
Segir hún Oscar elska að fara í skólann en hann þori reyndar ekki að fara núna.