Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins, segir mikilvægt að sporna gegn göllum í nýbyggingum.
Tilefnið er umfjöllun Morgunblaðsins að undanförnu um mikla galla í nýbyggingu í Vogabyggð í Reykjavík en í kjölfar hennar hafa margir haft samband við blaðið og lýst yfir áhyggjum af stöðunni. Sagði einn þeirra að virðing fyrir fagþekkingu íslenskra byggingarmanna með öfluga byggingarreynslu væri nú nær engin. Gróðinn væri aðalatriðið.
Jóhanna Klara segir málið alvarlegt. „Byggingargallar hafa víðtæk áhrif, þeir geta haft alvarlegar afleiðingar og valdið fjárhagslegu tjóni. Þeir hafa neikvæð áhrif á ímynd greinarinnar sem er miður þar sem á markaði eru fjölmargir byggingarverktakar sem hafa mikla reynslu og halda vel utan um þau atvik sem upp koma, lagfæra þau og bæta verkferla í kjölfarið. Það er því afar mikilvægt að farið sé í markvissar aðgerðir til að greina og fyrirbyggja galla en í dag sjáum við að gallar koma fram af ýmsum ástæðum,“ segir Jóhanna Klara.
„Iðnaðurinn tekur m.a. virkan þátt í mótun og eftirfylgni með Vegvísi um mótun rannsóknarumhverfis mannvirkjagerðar, sem HMS hefur gefið út, en þar er byggingargöllum gefinn sérstakur gaumur. Þar er lagt upp með að safna upplýsingum um galla með kerfisbundnum hætti, til dæmis frá tryggingafélögum, verkfræðistofum og úr dómsskjölum. Þannig vonumst við til að fá loks heildstæða tölfræði og innsýn í algengustu orsakir gallanna. Við höfum hingað til ekki haft skýra yfirsýn yfir umfang þeirra, orsakir eða þróun. Þessi yfirsýn er forsenda þess að hægt sé að ráðast að rótum vandans, tryggja gæði og auka traust. Það hefur ítrekað verið bent á að án slíkra gagna sé erfitt að vinna að raunverulegum umbótum. Við viljum styðja við nálgun sem miðar að því að koma í veg fyrir galla áður en þeir verða til með fræðslu, góðri hönnun, skýrara verklagi og hnitmiðaðra eftirliti.
Ég nefndi það líka að eftirliti með byggingarvörum á Íslandi hefur um árabil verið ábótavant. Þrátt fyrir að löggjöf hafi verið til staðar vantaði um langt skeið formlegt og virkt eftirlit með því hvort vörur uppfylltu þær kröfur sem þær voru sagðar gera. Það var ekki fyrr en með tilkomu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem raunverulegt eftirlitshlutverk fór að taka á sig mynd. Stofnunin hefur lykilhlutverk í að byggja upp markaðseftirlit með byggingarvörum, sinna skoðunum, krefjast úrbóta og hafa áhrif á innflutning ófullnægjandi vara. Það liggur því fyrir að þrátt fyrir tilvist regluverks á pappírum hafi framkvæmd þess verið veikburða þar til HMS tók við stjórninni og hóf að efla verklag, eftirlit og upplýsingamiðlun,“ segir Jóhanna Klara að lokum.
Jón Sigurðsson, formaður Meistarafélags húsasmiða og Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins, segir slæleg vinnubrögð skýra galla í nýbyggingum.
„Menn eru einfaldlega að byggja illa. Byggingarmarkaðurinn hefur breyst svo mikið. Áður fyrr voru meistarar að byggja, fengu lóðir og byggðu upp hús og fyrirtæki og orðspor. Þeir komu og löguðu gallana ef eitthvað kom upp á, jafnvel tveimur til fjórum árum síðar. Nú eru komnir fjárfestar inn á markaðinn sem hugsa aðeins um að græða sem mest á sem skemmstum tíma. Þeim er sama um gæði bygginganna sem þeir skila af sér enda ætla þeir aðeins að hirða hagnaðinn og eru svo farnir.
Þeir ráða til sín unga og jafnvel reynslulausa meistara til að vera byggingarstjórar sem eru þar með á þeirra vegum. Byggingarstjórarnir þora þar af leiðandi ekki að taka afstöðu á móti fjárfestunum. Ef fjárfestarnir fá ráðleggingar um úrbætur fara þeir jafnvel ekki í málin af því að það kostar allt peninga. Sumir fjárfestar hugsa lítið um gæði bygginganna heldur eru bara að hugsa um að hámarka hagnaðinn. Því miður.“
Hvaða leiðir eru til úrbóta?
„Sveitarfélögin eru farin að nota lóðir sem tekjulind. Það er lítið framboð af lóðum og of lítið byggt og það sprengir upp verðið. Ef fleiri lóðum væri úthlutað og meira byggt myndi fasteignaverð lækka og þessir aðilar fara út af markaðnum. Þeir hafa engan áhuga ef þeir geta ekki grætt nógu mikið og þá verða þeir ekkert á markaðnum lengur.
Bankarnir stýra þessu líka enda lána þeir bæði til framkvæmdaaðila og íbúðareigenda. Bankarnir hafa lánað til framkvæmda út á hátt íbúðaverð. Heldurðu að þeir vilji lána til framkvæmdaaðila sem ætlar að byggja ódýrara og selja ódýrara? Það er ég ekki viss um.“
„Já. Miklu betur. Áður var lítið um viðgerðir á húsum sem voru yngri en 20-30 ára. Það var ekki farið að gera við hús á Íslandi að einhverju ráði fyrr en árið 1990. Viðhaldsmarkaðurinn á Íslandi er því nýr. Mörg af fyrstu fyrirtækjunum sem sérhæfðu sig í viðhaldi tóku til starfa í kringum 1990.
Það væri líka óskandi að hafa meiri upplýsingar um galla í nýbyggingum. Hvað er vandamálið? Hvar er lekinn? Eru það veggirnir eða þökin?“
Jón segir hafa verið slakað á kröfum í þessu efni.
„Ég hef komið inn í nýjar íbúðir og hef lesið skilalýsingar á nýbyggðum íbúðum. Ég var að vinna hjá Byggungi í gamla daga en á árunum 1980-1985 vorum við að byggja íbúðir sem áttu að teljast frekar ódýrar. Við hefðum hins vegar ekki skilað íbúðum eins og þeim sem er lýst í nýju skilalýsingunum. Það sem eru nú ekki taldir vera gallar hefðum við lagað á þessum árum sem sýnir hvernig hlutirnir hafa þróast til verri vegar. Þetta verður að laga. Þetta gengur ekki upp,“ segir Jón.
„Einnig þarf að hætta að tryggja byggingarstjóra heldur á að láta fyrirtækið sem byggir og selur kaupa tryggingu sem tryggir hér um bil andvirði hússins og gildir í tíu ár að lágmarki. Fólk kaupir bíl með sjö ára tryggingu. Af hverju ætti fólk að kaupa húsnæði fyrir aleiguna með sex ára tryggingu fyrir aðeins að hámarki 16 milljónir? Þetta er galið. Það þarf að hætta að tryggja byggingarstjórana, heldur á að láta fyrirtækin kaupa tryggingarnar,“ segir Jón Sigurðsson að lokum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.