Búseti hefur lagt fram 17 síðna kröfugerð þar sem fram kemur krafa um að græna gímaldið svonefnda við Álfabakka í Mjódd verði fjarlægt og jarðrask afmáð.
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík afturkalli byggingarleyfi fyrir allt mannvirkið og allar framkvæmdir verði stöðvaðar. Í lok janúar afturkallaði byggingarfulltrúinn byggingarleyfi fyrir kjötvinnslu í húsinu og síðan þá hefur tíminn verið notaður til að klára húsið.
Erlendur Gíslason, lögmaður hjá LOGOS, segir að byggingaraðili hafi tekið mikla áhættu með því að leggja kapp á að klára húsið; það sé gert í vondri trú þar sem verulegir annmarkar hafi komið í ljós við gerð deiliskipulags og útgáfu leyfa.
„Frá því að fyrstu kröfur um verkstöðvun tóku að berast í nóvember og desember hefur framkvæmdaraðili verið í vondri trú. Hann veit af mótmælum nágranna og þeim kröfum sem fram hafa verið bornar. Við bendum á dómafordæmi þess efnis að þegar menn hafa klárað byggingar vitandi um mótmæli þá geta þeir ekki vísað í að það séu svo miklir hagsmunir í húfi að það þurfi ekki að farga byggingunni. Byggingaraðilinn hljóp til í lok janúar og setti aukinn kraft í að klára verkið,“ segir Erlendur.
Hann segir að með ákvörðun sinni í lok janúar um að afturkalla byggingarleyfi kjötvinnslunnar hafi byggingarfulltrúinn drepið málinu á dreif, sem setti allt í stopp í kæruferlinu. Á meðan gafst byggingaraðila færi á að ljúka við bygginguna að utan.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.