Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnir nú tveimur útköllum vegna gróðurelda, annars vegar í Mosfellsdal, fyrir neðan Helgafell, og hins vegar við Hafravatn.
Að sögn Bjarna Ingimarssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, náði eldurinn í Mosfellsdal yfir rúmlega 100 fermetra svæði og hafa slökkviliðsmenn slökkt eldinn. Segir hann að orsökin hafi líklega verið óvarfærni vegfarenda.
Þá segir hann slökkviliðsmenn vera á leiðinni upp að Hafravatni þar sem annar gróðureldur hafi kviknað.
Þar að auki kviknaði gróðureldur í Elliðaárvogi í morgun, en sjálfdautt var í eldinum þegar slökkvilið kom á svæðið.
„Það er talsvert af sinu og gróðurinn er mjög þurr núna, þannig að það er töluverð hætta ef ekki er farið varlega með eld,“ segir Bjarni og brýnir fyrir almenningi að fara varlega með opinn eld úti í náttúrunni.