Þrír voru handteknir vegna gruns um nytjastuld vélknúinna ökutækja og fleira og voru þeir allir vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls eru 69 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu og gista tólf í fangageymslu lögreglu.
Einn var handtekinn í miðborginni vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna og var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar.
Lögreglan á lögreglustöð 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, fékk tilkynningu um innbrot og þjófnað í verslun og er málið til rannsóknar.
Þá voru nokkrir ökumenn handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna og var einn þessara ökumanna einnig grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna.