Einn var handtekinn en var látinn laus skömmu síðar í aðgerðum lögreglunnar á Suðurlandi í gær þar sem sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út til aðstoðar.
Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að um sérstaka einangraða rannsóknaraðgerð hafi verið að ræða sem átti sér stað í Árnessýslu. Hann vildi ekki greina frá því í hvaða bæjarfélagi aðgerðin hafi átt sér stað.
Spurður hvers vegna sérsveit ríkislögreglustjóra hafi verið kölluð til aðstoðar segir hann:
„Við fáum sérsveitina oft til aðstoðar til að tryggja öryggi okkar sjálfra og þeirra sem eru á staðnum.“
Hann segir að rannsókn málsins standi enn yfir en ekki sé um stórt mál að ræða.