Þorleifur Pálsson, fyrrverandi sýslumaður í Kópavogi, lést miðvikudaginn 23. apríl síðastliðinn.
Þorleifur fæddist á Skinnastað í Öxarfirði þann 17. júní árið 1938 og ólst þar upp við öll almenn sveitastörf. Foreldrar hans voru sr. Páll Þorleifsson prófastur og Guðrún Elísabet Arnórsdóttir.
Þorleifur sótti barnaskóla á Lundi í Öxarfirði, las heima undir leiðsögn föður síns, tók landspróf við Héraðsskólann á Laugum og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1960. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1968 og stundaði framhaldsnám í stjórnsýslurétti við Oslóarháskóla veturinn 1973.
Þorleifur var fulltrúi sýslumannsins í Vík í Mýrdal frá 1968, og var settur sýslumaður þar 1969-70 og 1974. Hann var fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá 1970, deildarstjóri þar frá 1976 og skrifstofustjóri 1987-92. Þorleifur var skipaður sýslumaður í Kópavogi 1992 og gegndi því embætti til ársins 2008.
Þorleifur stundaði hestamennsku í yfir 50 ár og fór ótal lengri og skemmri hestaferðir á þeim tíma, víðs vegar um öræfi landsins og flesta landshluta. Að auki fór Þorleifur margoft í göngur, í Öxarfirði og á afréttum Árnessýslu. Undanfarin 40 ár hefur Þorleifur og fjölskylda haft aðstöðu til hrossahalds á býlinu Vindási í Hvolhreppi.
Söngur hefur verið annað áhugamál Þorleifs. Hann söng með Stúdentakórnum og söngsveitinni Fílharmóníu í nokkur ár en síðan 1974 hefur hann sungið með Karlakórnum Fóstbræðrum og með Gömlum Fóstbræðrum síðan 2010.
Eftirlifandi eiginkona Þorleifs er Guðbjörg Kristinsdóttir lyfjafræðingur. Sonur þeirra er Kristinn Tryggvi Þorleifsson framkvæmdastjóri, kvæntur Þórdísi Rúnarsdóttur sálfræðingi. Sonur Guðbjargar er Stefán Baldvin Friðriksson forstjóri, kvæntur Þjóðhildi Þórðardóttur viðskiptafræðingi.