Stuðningsmenn Liverpool eru vægast sagt spenntir fyrir leik sinna manna gegn Tottenham sem fram fer á Anfield á sunnudaginn en Liverpool dugar jafntefli í leiknum til að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn. Hátt í 60 manns halda til Liverpool í dag á vegum ferðaskrifstofunnar Visitor og verða á meðal áhorfenda á Anfield.
„Það eru 56 manns á okkar vegum sem fara með vélinni í dag og óvænt hefur þessi ferð breyst upp í mjög skemmtilega ferð í ljósi stöðunnar sem upp er komin,“ segir framkvæmdastjóri Visitor ferðaskrifstofu, Sigurður Hlöðversson, betur þekktur sem Siggi Hlö.
Hann segist skynja mikla spennu og eftirvæntingu hjá þeim sem halda til Liverpool í dag.
„Það er smá tryllingur í fólki og sérstaklega hjá yngra fólkinu sem eðlilegt er enda er mikið í húfi.“
Sigurður segir að í gær hafi tólf ákveðið að skella sér á leikinn.
„Ég er búinn að vera í smá brasi við að útvega þeim miða en allt hefst þetta,“ segir Sigurður.
Liverpool er með tólf stiga forskot á Arsenal og allar líkur eru á að „Rauði herinn“ hampi sínum 20. meistaratitli og jafni þar með Manchester United yfir fjölda titla í deildinni. Liverpool á fimm leiki eftir en Arsenal 4.
Spurður hvað fólk sé að borga fyrir miða á leikinn segir Sigurður:
„Helgarferð er alltaf að kosta um 200 þúsund á mann þar sem innifalið er flug, gisting og miði á leikinn en í gær var miði á leikinn kominn í frá 1.200 pundum,“ segir hann en það jafngildir rúmlega 200 þúsund krónum.
Liverpool og Arsenal mætast á Anfield þann 11. maí og segir Sigurður að það sé stærsti leikurinn á vegum Visitors.
„Þetta er leikurinn sem fólk var að veðja á í ágúst að gæti orðið úrslitaleikurinn í deildinni en núna er viðureign Liverpool og Tottenham orðin aðalleikur ársins. Ég held að Liverpool klúðri ekki tækifærinu á sunnudaginn að tryggja sér titilinn á heimavelli fyrir framan sína stuðningsmenn,“ segir hann.
Hann segir að í dag sé mikið um að fjölskyldur skelli sér saman á leiki í ensku úrvalsdeildinni og mörg dæmi eru um að fermingarbörn fái slíkar ferðir í gjöf eða afi sem fagnar 70 ára afmæli sínu.
„Þessar gömlu, góðu fyllerísferðir heyra sögunni til,“ segir hann.
Sjálfur er Siggi gallharður stuðningsmaður Manchester United. Hann segist reyna að láta ekki mikið sjá sig á Anfield og hann mun ekki fylgja hópnum til Liverpool.
„Það vita allir með hvaða liði ég held en ég hef þó farið í nokkrar Liverpool-ferðir. Mér finnst æðislegt að koma til Anfield og Liverpool er skemmtileg borg,“ segir hann.