„Þetta er allt saman að róast og landrisið er að detta niður í mjög svipaða stöðu og var fyrir síðasta gos.“
Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, við mbl.is spurður út í stöðuna við Sundhnúkagíga. Áttunda eldgosið frá því goshrinan hófst við Sundhnúkagíga í desember 2023 hófst 1. apríl en því lauk aðeins um sex klukkustundum síðar.
Benedikt segir að skjálftavirknin fari minnkandi en á meðan kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi þurfi að reikna með kvikuhlaupi eða eldgosi.
„Ég held að við séum ekkert að búast við því að það fari eitthvað gerast aftur þarna á næstunni og það gætu alveg liðnir nokkrir mánuðir í næsta atburð. Kerfið er klárlega að hægja á sér og ég efast um að það gjósi í sumar miðað við hvernig þetta er að þróast en það er samt ekki útilokað,“ segir hann.
Benedikt segir klárt að kvikuflæðið sé að minnka og að skammtímabreytingar virðist vera meira tengdar ástandinu í kvikuhóflinu sjálfu og eiginleikum jarðskorpunnar í kring.