Gríðarlegur uppgangur helsingjastofnsins á Suðausturlandi er farinn að ógna afkomu bænda.
Svo rammt kveður að fjölgun gæsategundarinnar að stórsér á afurðum bænda og samkeppni um beit í úthaga og á túnum er orðin slík að í sumum tilvikum þarf að taka sauðfé á hús fyrr að hausti þar sem ekkert er til skiptanna þegar helsinginn hefur tekið hvað hressilegast til matar síns.
Á þetta bendir Bjarni Haukur Bjarnason, bóndi á Kálfafelli í Suðursveit. Hann segir að sértækt veiðibann sem í gildi er í Skaftafellssýslum geri bændum ókleift að grisja stofninn að nægilegu marki. Nú þurfi hins vegar að bregðast skjótt við þar sem fuglinn sé farinn að hafa veruleg áhrif á vistkerfi svæðisins.
„Staðan er mjög slæm núna. Hann klárar einfaldlega gróðurinn. Það hefur lítið rignt og það litla sem sprettur hverfur einfaldlega ofan í fuglinn. Hann er búinn að bíta túnin alveg niður,“ segir Bjarni Haukur, sem hefur miklar áhyggjur af stöðu mála.
„Maður reynir að bera á túnin og hann étur allt. Svo ætlar maður að koma með lambfé á túnin og þá er samkeppnin orðin svo mikil að það seinkar allri sprettu og möguleikum til sláttar þegar líður á sumarið,“ útskýrir Bjarni Haukur.
Bendir hann á að helsinginn leiti helst í túnin en fjölgunin í stofninum sem hingað sækir sé slík að þau dugi engan veginn til. Því sé úthaginn farinn að láta mjög á sjá.
„Á síðustu tveimur árum hefur þetta verið hreinlega svakalegt. Við erum að sjá 30% fall í afurðum og það eru engar aðrar breytur sem geta skýrt þetta högg en uppgangur helsingjans,“ segir Bjarni Haukur.
Hann segir að veiða þurfi fuglinn í mun meira mæli og aflétta sérreglum sem gilda um veiðileyfi í Skaftafellssýslum. Hann segist hafa rætt málið við Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra og hún sé öll af vilja gerð. Málið sé til skoðunar.
„En það er bara ekki hægt að skoða málin endalaust og vega og meta stöðu stofnsins heilt yfir landið eða á mjög stóru svæði. Áhrifin geta verið mjög staðbundin og veruleg eins og í okkar tilviki. En þetta á við um fleiri bændur í Öræfum og Suðursveit,“ segir Bjarni Haukur.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.