Forstjóri og stjórnarformaður Isavia hafa ekki gefið kost á sér til viðtals og ekki heldur fjármála- og efnahagsráðherra vegna kaffiskúrs í eigu ríkisfyrirtækisins sem ákveðnir aðilar hafa breytt í bænahús.
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins segir að Isavia þurfi að „gyrða sig í brók“ vegna ástandsins sem hefur skapast á Keflavíkurflugvelli.
Kaffiskúrinn á að vera í boði fyrir leigubílstjóra á Keflavíkurflugvelli en eins og greint hefur verið frá þá hefur leigubílstjórum verið meinaður aðgangur að honum af öðrum leigubílstjórum sem hafa lagt undir sig skúrinn fyrir bænahald.
Upplýsingafulltrúi Isavia vildi ekki svara spurningum mbl.is fyrr í dag um það af hverju aðstaðan hefði verið tekin fyrir bænahald né þá hversu lengi Isavia hefði vitað af þessu.
Nýskipaður stjórnarformaður Isavia, Steinþór Pálsson, vildi ekki tjá sig við mbl.is og upplýsingafulltrúi Isavia sagði ekki möguleika á því að fá viðtal við forstjóra Isavia í dag, og jafnvel ekki eftir helgi.
Þá hefur Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, ekki svarað fyrirspurnum um viðtal.
Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar á facebook að Isavia þurfi að „gyrða sig í brók.“
„Nú er nóg komið! Það er greinilegt að framkvæmd á lögum um leigubifreiðaakstur frá 2022 hefur algjörlega mistekist. Kröfur til þeirra sem keyra leigubifreiðar virðast litlar sem engar og ófremdarástand, svo vægt til orða sé tekið, ríkir á leigubílamarkaði. Neytendavernd er engin og fréttir, og nýlegir dómar, sýna að öryggi notenda er ógnað.“
Hann segir augljóst að fyrir þinglok í vor verði að breyta umræddum lögum og herða kröfur til þeirra sem keyra leigubifreiðar sem og þeirra sem reka leigubílastöðvar.
„Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á þetta lengur. Þangað til verður Isavia að gyrða sig í brók vegna ástandsins sem skapast hefur á Keflavíkurflugvelli,“ skrifar Jens.
Haft var eftir leigubílstjóra í fréttum RÚV að kaffiaðstaða leigubílstjóra væri nú „bænahús“ og að menn hefðu ekki einu sinni aðgengi að klósetti þar sem húsið væri upptekið undir bænahald múslíma.
Í fréttum má sjá að fréttamanni er vísað frá á meðan bænahald er í gangi innandyra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hjólaði einnig í Isavia í kjölfar frétta af málinu.
„Allt í einu ertu lentur í samkeppni við menn hvaðan æfa að úr heiminum sem þurfa ekki að uppfylla sömu skilyrði og þú. Ganga fram eins og þeim sýnist og rukka jafnvel að vild.
Svo máttu ekki eini sinni fara inn í kaffiskúrinn þinn til að pissa af því að hofmóðugt ríkisfyrirtæki er búið að breyta honum í bænahús fyrir þá sem tóku af þér vinnuna,“ skrifaði Sigmundur á facebook.