Isavia kýs að svara ekki spurningu um það hvers vegna aðstaða fyrir leigubílstjóra á Keflavíkurflugvelli hefur verið nýtt undir bænahald leigubílstjóra.
Haft var eftir leigubílstjóra í fréttum RÚV að kaffiaðstaða leigubílstjóra væri nú „bænahús“ og að menn hefðu ekki einu sinni aðgengi að klósetti þar sem húsið væri upptekið undir bænahald múslíma.
Í fréttum má sjá að fréttamanni er vísað frá á meðan bænahald er í gangi innandyra.
„Kaffiaðstaðan“ er í eigu Isavia. Spurður um það hvort Isavia væri meðvitað um það að húsið væri nýtt undir bænahald svarar Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia ekki spurningunni.
„Þarna er húsnæði sem er í eigu Isavia. Þetta er aðgengilegt öllum leigubílstjórum sem hafa aðgang að leigubílasvæðinu við Keflavíkurflugvöll og kjósa að nýta sér þessa aðstöðu. Þarna er aðstaða fyrir þá sem vilja nota klósett og neyta matar eða drykkjar. Þetta er opið fyrir alla leigubílstjóra sem kjósa að gera svo,“ segir Guðjón.
Spurður að nýju hvort fyrirtækið sé meðvitað um að það hafi verið tekið yfir fyrir bænahald þá kýs Guðjón að vísa til fyrra svars án þess að svara spurningunni.