Rekstrarafkoma Sveitarfélagsins Árborgar árið 2024 er með þeim bestu frá upphafi og langt umfram áætlanir.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Árborgar en ársreikningurinn var lagður fram í bæjarráði sveitarfélagsins í morgun.
Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var jákvæð um 3.243 milljónir króna, þrátt fyrir að gert hafði verið ráð fyrir 115 milljóna króna halla.
Í A-hluta var reksturinn jákvæður um 1.892 milljónir, þar sem gert hafði verið ráð fyrir um 1.000 milljóna halla.
„Þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða,“ er haft eftir Braga Bjarnasyni bæjarstjóra í tilkynningu á vef bæjarins en hann telur að hagræðingaraðgerðir, sala eigna og auknar tekjur vegna íbúafjölgunar og sérstaks álags á útsvari skýri árangurinn að stórum hluta.
Veltufé frá rekstri meira en tvöfaldast á milli ára og nam 4.383 milljónum króna. Handbært fé jókst einnig um tæpar 2.000 milljónir og nam alls 2.333 milljónum króna í lok árs. Bragi segir þetta sýna að aðgerðir síðustu ára hafi skilað sér fyrr en vonast var til.
„Við stefndum að ábyrgri lausn á rekstrarvanda og það er að takast,“ segir Bragi. Hann segir markmiðið áfram vera að skapa forsendur til lækkunar gjalda og álaga – íbúar eigi að njóta árangursins.
Skuldir við lánastofnanir lækkuðu milli ára og skuldaviðmið sveitarfélagsins er nú 107,6% en var áður 147,4%. Aftur á móti jukust heildarskuldir lítillega vegna skammtímalána sem verða endurfjármögnuð.
Ársreikningurinn tekur meðal annars tillit til tekna af sölu byggingarréttar í Björkurstykki sem skilaði 700 milljónum króna umfram áætlanir. Jákvæð rekstrarniðurstaða náðist í flestum málaflokkum og útsvarstekjur jukust m.a. vegna meiri íbúafjölgunar en gert hafði verið ráð fyrir, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Hluti af fjárhagsaðgerðum undir yfirskriftinni Brú til betri vegar var sérstakt álag á útsvarið árið 2024. Aðgerðin – sem nær aðeins til þessa árs – skilaði sveitarfélaginu um 300 milljónum króna umfram áætlanir og hafði veruleg áhrif á reksturinn.
„Það má segja að nú reyni á að viðhalda aga í rekstrinum og halda áfram á þessari braut,“ segir Bragi. Hann bendir á að samkomulagi sveitarfélagsins við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga ljúki 1. maí og að þessi árangur styðji við áframhaldandi bættan rekstur.